Ljósleiðari í hnotskurn

22. júlí 2025

Hvernig virkar ljósleiðari? 

Vissir þú að ljósleiðari er ein besta leiðin til að senda upplýsingar um langar vegalengdir? Ástæðan er einföld: ljósleiðarar senda merki með ljósi í stað rafmagns, eins og hefðbundnir koparstrengir gera. Kopar hefur nefnilega takmarkaða getu til að flytja upplýsingar og því lengri sem leiðslan er, því minna merki kemst í gegn. Með ljósleiðara þarf ekki að hafa áhyggjur af slíku. 

Í ljósleiðara eru merkin send með leysigeisla á mismunandi tíðnum. Það þýðir að hægt er að senda mörg mismunandi merki á sama tíma í gegnum einn ljósleiðara. Þess vegna getur ljósleiðari flutt margfalt meiri upplýsingar og á miklu meiri hraða en koparstrengir gætu nokkurn tímann gert. 

Koparinn var alltaf vandamál 

Þegar símafyrirtækin notuðu kopar þurftu þau stöðugt að stytta vegalengdina milli notanda og búnaðar til að fá sæmilegan hraða. Þetta er einmitt ástæðan fyrir öllum götuskápunum sem voru settir upp í hverfum — búnaðurinn þurfti alltaf að vera nær heimilinu til að ná góðu sambandi. Ljósleiðari drífur 40-80 km án þess að tapa gæðum á meðan koparinn nær 100-800 m og gæðatap eykst eftir því sem vegalengdin er meiri.  

Ljósleiðarar hafa ekki þessi takmörk. Með því að skipta um búnað á enda ljósleiðarans er hægt að auka styrk ljósmerkisins og senda merkið enn lengra. Þannig getur ljósleiðari auðveldlega flutt merki kílómetra eða jafnvel tugi kílómetra án þess að missa gæði. 

Ljós þarf ekki leyfi 

Annar stór kostur ljósleiðarans, umfram Wi-Fi, er að hann notar ekki tíðnirófið í loftinu, sem er mjög takmörkuð auðlind. Wi-Fi notar loftið til að senda gögn með rafsegulbylgjum. Þessar bylgjur nota ákveðnar tíðnir (t.d. 2,4 GHz eða 5 GHz). Til þess að nota loftið fyrir útvarp, sjónvarp eða farsíma þarf alltaf leyfi frá Fjarskiptastofu. Tíðnisvið ljósleiðara er hins vegar alfarið okkar og við þurfum ekkert leyfi fyrir því. Af hverju? Vegna þess að ljósleiðarinn notar ljós en ekki rafboð. 

Töluvert umhverfisvænni kostur 

Ljósleiðari er ekki bara hraðari og áreiðanlegri en kopar – hann er líka mun umhverfisvænni kostur. Við framleiðslu ljósleiðara myndast allt að 50–75% minna kolefnisspor en við framleiðslu koparstrengja. En stærsti munurinn kemur í rekstri: Ljósleiðari notar 80–90% minna rafmagn við gagnaflutning en kopar, þar sem ljósmerki tapa nær engri orku á leiðinni. 

Þegar litið er á allan líftíma netkerfa, frá uppsetningu til daglegs reksturs, getur ljósleiðari dregið úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda um 60–70% miðað við hefðbundna koparlausn. Ljósleiðari er því ekki aðeins tæknilega betri – hann er líka skref í átt að sjálfbærari og orkusparandi fjarskiptainnviðum. 

Engin þörf á að grafa upp götuna 

Þá má ekki gleyma því að ljósleiðari er lagður í rör undir jörðinni. Ef ljósleiðarinn skemmist eða ef það þarf að skipta honum út þarf ekki að grafa upp alla götuna. Það er einfaldlega hægt að draga nýjan streng í gegnum rörið sem er nú þegar til staðar. 

Margfalt betri endingartími og afköst 

Ljósleiðari hefur mun lengri endingartíma en kopar. Ljósleiðari er úr gleri sem brotnar ekki niður eins og málmar. Ljósleiðari leiðir ekki rafmagn, svo hann er ónæmur fyrir eldingum, raftruflunum og oxun. Ljósleiðari ryðgar ekki og krefst minna viðhalds.  

30 ára ljósleiðari, enn í fullum gír  

Dæmi um góða endingu ljósleiðara er NATO-ljósleiðarinn sem lagður var í kringum Ísland árið 1989–1992. Sá ljósleiðari er enn í fullri notkun eftir meira en þrjátíu ár. Með nýjustu tækni er nú hægt að senda mörg hundruð gíg af upplýsingum í gegnum hann — meira en nokkurn hefði órað fyrir þegar hann var fyrst settur niður. 

 

Þessi færsla er fyrsti hluti af seríunni Sögur Ljósleiðarans sem við munum segja á næstunni á miðlunum okkar. Fylgstu með, því fróðleiksmolarnir verða ótalmargir og áhugaverðir!

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.