Ertu að byggja?

Ljósleiðarinn ehf. leggur mikið upp úr að gæðasamband Ljósleiðarans sé alla leið, og því bjuggum við til þessar leiðbeiningar sem eru ætlaðar verktökum, raflagnahönnuðum og öðrum sem leggja og hanna lagnir fyrir ljósleiðara.

Mikilvægt er að Ljósleiðarinn sé með í ráðum vegna lokafrágangs á fjarskiptalögnum, enda vilja íbúar & fyrirtæki fá gæðasamband Ljósleiðarans strax við afhendingu fasteignar.

Ekki hika við að senda okkur erindi strax á byggingarstigi húss, á netfangið ljosleidarinn@ljosleidarinn.is svo hægt sé að gera ráð fyrir Ljósleiðaranum í þinni byggingu.   

Hlutverk

Meginhlutverk Ljósleiðarans er að veita íslenskum heimilum og fyrirtækjum aðgengi að hágæða þjónustu á opnu aðgangsneti.  Ljósleiðarinn byggir á PTP (Point to Point) kerfi, en það þýðir að hvert og eitt heimili eða fyrirtæki hefur aðgengi að ljósleiðara alla leið, frá endanotanda að grunnneti Ljósleiðarans og deilir því ekki bandvídd með öðrum.  Einnig hefur þessi uppbygging þann kost að auðvelt er að auka hraða sambands með því einfaldlega að skipta út endabúnaði hjá notanda. 100% ljósleiðari skilar bandvídd til framtíðar. Til að setja þetta í samhengi getur einn ljósleiðaraþráður í dag borið öll símtöl heimsins á sama tíma.

Ljósleiðarinn leggur eingöngu single mode (SM) ljósleiðarastrengi á höfuðborgarsvæðinu, frá Mosfellsbæ til Hafnarfjarðar en auk þess leggur Ljósleiðarinn ljósleiðara á Akranesi, Borgarbyggð, Hveragerði, Þorlákshöfn, Hellu og Hvolsvelli.

Ein heimsókn

Ljósleiðarinn býður heimilum upp á fría heimsendingu á Einni heimsókn þegar heimili er tilbúið að tengjast við Ljósleiðarann.  Þetta er samstarfsverkefni Ljósleiðarans og fjarskiptafyrirtækjanna. Í Einni heimsókn er sett upp nýjasta tegund af ljósleiðaraboxi og að auki eru lagðar allt að þrjár innanhússlagnir (fyrir internet, síma og sjónvarp), íbúum að kostnaðarlausu.

Allur endabúnaður fjarskiptafyrirtækis er síðan tengdur og að lokum allar þjónustur prófaðar til að tryggja að gæðasamband Ljósleiðarans.

Reglur

Hönnuðum er bent á að kynna sér reglur  Póst- og fjarskiptastofnunar
nr. 1111/2015 um innanhússfjarskiptalagnir.

Inntak

Inntak ljósleiðara skal helst vera staðsett þar sem aðgengi er gott í sameignarrými, við smáspennu kerfi hússins og  miðað er við að staðsetning inntakskassa sé í vinnuhæð.

Ef húseigandi setur upp 19“ skáp fyrir ljósleiðaratengingar sem rúmar bæði lagnir fjarskiptafyrirtækja og innanhússlagnir,  þarf Ljósleiðarinn eina „U“ tengiskúffu fyrir sína viðskiptavini og engum öðrum en tæknimönnum Ljósleiðarans er heimilt að tengja sig inn á þá tengiskúffu. Síðan er lagður sér ljósleiðarastrengur upp í íbúð og mælir Ljósleiðarinn með því að sá strengur sé óháður öðrum fjarskiptakerfum enda byggir kerfi Ljósleiðarans á PTP eins og áður kom fram. Gæta skal að hafa góðan slaka á strengjum og aukaleiðurum en ljósleiðari þarf alla jafna talsvert meiri slaka en aðrar lagnir.

Í fjölbýlishúsum þar sem ekki er settur upp 19“ skápur setur Ljósleiðarinn upp inntakskassa fyrir sinn stofnstreng. Framkvæmdaraðilar eru hvattir til að leita til Ljósleiðarans um útfærslu og frágang ljósleiðara- og fjarskiptalagna. Frekari upplýsingar um ljósleiðarastreng Ljósleiðarans í nýbyggingum má nálgast á ljosleidarinn@ljosleidarinn.is

Frágangur á lögnum og öryggismál

Gott er að hugsa um gæðasamband í gegnum ljósleiðara eins og vatn sem rennur í gegnum garðslöngu, ef klemmt er á garðslönguna minnkar streymi vatns úr slöngunni eða það stoppar.

Því skal hafa í huga við frágang á ljósleiðaralögnum að beygjur mega ekki vera of krappar og ekki má heldur kremja strenginn (t.d. togfestur og dragbönd). Ef ekki er passað upp á þetta, getur strengur skemmst við uppsetningu og þar með næst ekki gæðasamband. Ávallt skal fylgja fyrirmælum framleiðanda varðandi meðferð ljósleiðarastrengja. 

Það skiptir miklu máli þegar unnið er með ljósleiðara að umgengni og hreinlæti sé haft í fyrirrúmi.  Óhreinindi í ljósleiðarasamböndum hefur slæm áhrif á gæðasamband.

  • Aldrei skal líta beint inn í ljósleiðaraenda
  • Forðast skal að hafa matvæli í kringum ljósleiðaratengingar
  • Afklippur skal geyma sér í boxi og fargað sem spilliefni
  • Þrífa vel vinnusvæði og hendur að vinnu lokinni.

Frekari upplýsingar

Sé frekari upplýsinga óskað varðandi hönnun, lagningu eða framkvæmdir
Ljósleiðarans, má endilega senda okkur erindi á netfangið ljosleidarinn@ljosleidarinn.is