Skil­málar Heim­ila

1. ALMENNT

  1. Skilmálar þessir gilda fyrir notkun heimila og fyrirtækja á ljósleiðaraneti Ljósleiðarans ehf. sem gengur undir heitinu Ljósleiðarinn.
  2. Ljósleiðarinn er fjarskiptasamband milli notkunarrýmis og þjónustuaðila sem veita þjónustu sína um ljósleiðaranet Ljósleiðarans ehf. Við virkjun Ljósleiðarans og með greiðslu reikninga telst vera komin á staðfesting á viðskiptaskilmálum þessum.
  3. Ljósleiðarinn ehf. áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum þessum og eru slíkar breytingar kynntar á vefsíðunni www.ljosleidarinn.is sbr. kafli 3.3.
  4. Viðskiptavinur er rétthafi Ljósleiðarans og ber ábyrgð á notkun hans skv. skilmálum í kafla 2.
  5. Viðskiptavinur ber fulla ábyrgð á greiðslum til Ljósleiðarans ehf. vegna notkunar á Ljósleiðaranum skv. skilmálum í kafla 3.
  6. Báðir aðilar geta sagt upp samningi þessum skv. skilmálum í kafla 4.
  7. Ljósleiðarinn ehf. ábyrgist ekki tjón sem rekja má til sambandsleysis, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptakerfis Ljósleiðarans eða þjónustuaðila, hvort sem slíkt má rekja til ljósleiðarabilana, bilana í netbúnaði eða annarra ástæðna.
  8. Ljósleiðarinn ehf. hefur lagt og tengt ljósleiðara sem hluta af ljósleiðaraneti sínu inn í inntakskassa sem staðsettur er fyrir innan húsvegg og er í eigu Ljósleiðarans ehf. Ljósleiðarinn er afhentur til notkunar með uppsetningu á endabúnaði, ljósleiðaraboxi, sem er tæki í eigu Ljósleiðarans ehf. Allar innanhússlagnir eru á ábyrgð og í eigu viðskiptavinar eftir að uppsetningu er lokið. Ljósleiðarinn ehf. ábyrgist ekki að lagnir fyrir internetþjónustu frá ljósleiðaraboxi að þjónustutækjum beri þá bandbreidd sem pöntuð er, t.d. ef ein lögn er notuð fyrir tvö þjónustutæki. Viðskiptavinur þarf að sjá sjálfur um breytingar á lögnum.
  9. Ljósleiðaranum ehf. er veitt heimild fyrir allri nauðsynlegri framkvæmdavinnu við lagningu fjarskiptalagna innandyra, þannig að viðskiptavinur geti tengst ljósleiðaraneti Ljósleiðarans ehf. og fengið þjónustu yfir Ljósleiðarann. Einnig er Ljósleiðaranum ehf. veitt heimild til að taka mynd af frágangi eða uppsetningu að framkvæmdavinnu lokinni. Ljósleiðaranum ehf. er veitt heimild fyrir mögulegum frávikum frá reglum Póst og fjarskiptastofnunar nr. 1111/2015 sbr. 2. mgr. 1. gr. þeirra, og tilvísuðum stöðlum í reglunum. Ljósleiðaranum ehf. er m.a. veitt heimild til að splæsi-tengja strengenda heimtauga sinna við innanhússlagnir líkt og heimilt er skv. 4. mgr. 7. gr. reglnanna. Að öðru leyti munu frávik ekki varða öryggismál, svo sem eldvarnar- eða rafmagnsöryggi, né önnur þau atriði sem tilgrein eru í 2. mgr. 1. gr. reglnanna.
  10. Ljósleiðarinn ehf. tekur ekki ábyrgð á mögulegum útlitslegum lýtum eða skemmdum sem kunna að verða á eignum húsráðenda ef ljósleiðarabox eða lagnir eru fjarlægðar eða skipt út, eftir að framkvæmdum Ljósleiðarans ehf. er lokið.

2. NOTKUN

  1. Viðskiptavinur er ábyrgur fyrir allri notkun á Ljósleiðaranum, þ.m.t. notkun á þeim endabúnaði sem lagður er til. Ef í ljós kemur að viðskiptavinur misnotar Ljósleiðarann, t.d. á þann hátt að notkun varði við lög eða hafi áhrif á notkun annarra viðskiptavina getur Ljósleiðarinn ehf. lokað á notkun Ljósleiðarans fyrirvaralaust, um stundarsakir eða til frambúðar.
  2. Viðskiptavini er skylt að fara vel með allan búnað sem þeir hafa til afnota og er í eigu Ljósleiðarans ehf. Viðskiptavinur er bótaskyldur skemmist búnaður eða glatist, og rekja má það til ásetnings eða gáleysis viðskiptavinar. Verði fjarskiptabúnaður fyrir skemmdum eða hann glatast ber viðskiptavini að tilkynna Ljósleiðaranum ehf. um það tafarlaust.
  3. Viðskiptavinur getur óskað eftir því við Ljósleiðarann ehf. að ljósleiðaraboxið verði fjarlægt úr viðkomandi fasteign og greiðir þá niðurtektargjald á ljósleiðaraboxi skv. verðskrá Ljósleiðarans ehf. Ljósleiðarabox er að jafnaði fjarlægt innan 15 daga frá því að ósk um það berst. Innanhússlagnir eru ekki fjarlægðar enda eru þær á ábyrgð viðskiptavinar. Ef ósk um uppsetningu á ljósleiðaraboxi berst að nýju á þeim stað þar sem ljósleiðarabox hefur verið fjarlægt að beiðni viðskiptavinar þarf að greiða uppsetningargjald skv. verðskrá Ljósleiðarans ehf.
  4. Óheimilt er að veita aðilum utan þeirrar íbúðar sem viðskiptavinur er skráður fyrir, s.s. öðrum íbúum fjölbýlishúsa, aðgang að Ljósleiðaranum.
  5. Ljósleiðarinn ehf. áskilur sér rétt til að tengjast ljósleiðaraboxi notenda í þeim tilgangi að veita aðstoð og eða til þess að uppfæra eða stilla ljósleiðaraboxið. Það er einungis gert í samráði við notanda hverju sinni.
  6. Þarfnist viðskiptavinur aðstoðar við sjónvarps-, síma- og/eða internetþjónustu skal hann leita til þess fjarskiptafélags sem veitir honum þjónustu um Ljósleiðarann.
  7. Ljósleiðarinn ehf. ber ekki ábyrgð á þjónusturofi en leitast þó við að koma þjónustu á að nýju skv. markmiðum sínum um þjónustustig og úrlausnartíma. Ef viðskiptavinur er án þjónustu vegna bilunar í ljósleiðaraneti Ljósleiðarans ehf. í lengri tíma en 3 daga og ástæðu þess má ekki rekja til athafna af hans hálfu getur hann krafist niðurfellingar aðgangsgjalds í réttu hlutfalli við þann tíma er þjónusturof varir.

3. GREIÐSLUR

  1. Verðskrá Ljósleiðarans ehf. er birt á www.ljosleidarinn.is/verdskra
  2. Viðskiptavinur greiðir mánaðarlegt gjald, svokallað aðgangsgjald, fyrir notkun á Ljósleiðaranum. Gjaldið miðast við þann dag sem þjónustan virkjast í kerfum Ljósleiðarans ehf. Gjaldið er greitt fyrirfram, að undanskildum tengimánuði hjá nýjum viðskiptavinum, en hann er eftirá greiddur.
  3. Mánaðarlegt gjald er samkvæmt verðskrá Ljósleiðarans ehf. hverju sinni og kemur fram á vefsíðunni www.ljosleidarinn.is. Allar breytingar á verðskrá Ljósleiðarans ehf. eru kynntar viðskiptavinum með að minnsta kosti eins mánaðar fyrirvara á vefsíðunni www.ljosleidarinn.is. Viðskiptavinir skuldbinda sig til að hlíta gildandi verðskrá Ljósleiðarans ehf. hverju sinni.
  4. Viðskiptavinur greiðir tilkynningar- og greiðslukostnað fyrir rafrænar tilkynningar, skuldfærslur á greiðslukort eða beingreiðslur, skv. verðskrá Ljósleiðarans ehf. Viðskiptavinur getur óskað sérstaklega eftir útgefnum greiðsluseðli og greiðist þá svokallað seðilgjald, skv. verðskrá Ljósleiðarans ehf. Viðskiptavinur sem er 67 ára eða eldri fær sjálfkrafa greiðsluseðil nema óskað sé eftir öðrum greiðsluleiðum.
  5. Gjalddagi og eindagi aðgangsgjalds vegna yfirstandandi mánaðar er að jafnaði fimmti þess mánaðar. Sé reikningur greiddur eftir gjalddaga greiðir viðskiptavinur dráttarvexti frá gjalddaga til greiðsludags skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 auk innheimtukostnaðar skv. verðskrá Ljósleiðarans ehf.
  6. Ljósleiðaranum ehf. er heimilt að loka fyrir Ljósleiðarann hafi skuld ekki verið greidd innan 30 daga frá gjalddaga . Ef lokað er vegna vanskila ber Ljósleiðarinn ehf. enga ábyrgð á hugsanlegri röskun, óþægindum eða tjóni sem viðskiptavinur kann að verða fyrir vegna þessa.
  7. Athugasemdir við reikninga skulu berast eins fljótt og auðið er og eigi síðar en á gjalddaga. Að öðrum kosti telst reikningurinn samþykktur.
  8. Sé aðgangsgjald innheimt af fjarskiptafélagi fyrir hönd Ljósleiðarans ehf. eiga innheimtuskilmálar þess fyrirtækis við um innheimtuferlið í stað liða 4-7 hér að framan.

4. UPPSÖGN

  1. Báðir aðilar geta sagt upp notkun á Ljósleiðaranum.
  2. Uppsögn á aðgangi um Ljósleiðarann þarf að berast til Ljósleiðarans ehf. og skal hún vera skrifleg, s.s. með tölvupósti á ljosleidarinn@ljosleidarinn.is. Uppsögn til Ljósleiðarans ehf. jafngildir ekki uppsögn á þjónustu um Ljósleiðarann. Segja þarf upp þjónustu um Ljósleiðarann hjá viðkomandi fjarskiptafélagi. Segi viðskiptavinur notkun Ljósleiðarans upp þarf uppsögn að hafa borist eigi síðar en 15. dag mánaðar til þess að hún taki gildi um næstu mánaðarmót. Berist hún á 16. degi mánaðar eða síðar tekur hún gildi um þar næstu mánaðarmót.
  3. Hætti viðskiptavinur við að taka Ljósleiðarann í notkun eftir að uppsetningu á búnaði er lokið, ber honum að greiða til Ljósleiðarans ehf. gjald vegna uppsetningar innanhússlagna skv. verðskrá. Sé ekki búið að virkja Ljósleiðarann 60 dögum frá uppsetningu er sendur reikningur.

5. ÖNNUR ÁKVÆÐI

  1. Rísi ágreiningur um túlkun og skýringu á skilmálum þessum getur viðskiptavinur sent kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar.
  2. Um fjarskiptaþjónustu gilda lög um fjarskipti nr. 81/2003. Brot á lögum og reglum Póst- og fjarskiptastofnunar getur valdið tafarlausri lokun á þjónustu.
  3. Til að uppfylla skyldur sínar skv. skilmálum þessum og lögum samkvæmt vinnur Ljósleiðarinn ehf. með tilteknar persónuupplýsingar um viðskiptavini. Um vinnslu persónuupplýsinga fer samkvæmt persónuverndarstefnu Ljósleiðarans ehf. sem aðgengileg er á heimasíðu fyrirtækisins.
  4. Að öðru leyti gilda skilmálar samstarfsaðila Ljósleiðaranum ehf. um þá þjónustu sem við á hverju sinni og um þá þjónustu sem þeir veita um Ljósleiðarann.