Upphafsár internetsins – frá 1990
„Prívat net“ og opna netið
Áður en internetið varð hluti af daglegu lífi okkar réð ríkisfyrirtækið Póstur og sími algjörlega yfir fjarskiptum á Íslandi. Fyrirtækið rak svokallað „prívat net“, þar sem tæknin, aðgangurinn og upplýsingarnar voru miðstýrðar. Notendur voru háðir einni stofnun sem ákvað hvers konar aðgang hver og einn fékk að upplýsingum og samskiptum. Frjáls samkeppni var ekki til staðar og notendur höfðu takmarkaðan aðgang og lítið svigrúm til nýsköpunar.
Þegar internetið kom út úr skápnum
Þegar internetið kom fram á sjónarsviðið breyttist leikurinn algjörlega. Í byrjun var þetta hljóðlát breyting sem fór að mestu framhjá ríkjandi kerfum. Fólk notaði einfaldlega símalínurnar sem þegar voru til staðar til að tengjast hinu nýja, opna neti. Smám saman opnaðist aðgangurinn að upplýsingum, og með tímanum varð internetið tákn um nýja tíma þar sem upplýsingaflæði var ekki lengur háð einu ríkisfyrirtæki, heldur varð aðgengilegt öllum.
Frá prívat neti til frjálsra samskipta
Með internettengingu breyttist samfélagið hratt. Spjallrásir, tölvupóstur og vefsíður tóku við hlutverki sem áður var aðeins fyrir valda aðila. Netkaffihús opnuðu dyr sínar og ný fyrirtæki tóku að bjóða þjónustu sem áður var einokun. Með breytingu fjarskiptalaga lögleiðingu samkeppni árið 1998, breyttist fjarskiptalandslagið endanlega – frá ríkisrekinni miðstýringu yfir í opið, frjálst og hraðvaxandi vistkerfi.

Íslendingar kynnast ljósleiðara – 1989 – 1992
Saga ljósleiðarans á Íslandi nær aftur til níunda áratugarins þegar Póstur og sími hóf stafræna símstöðvavæðingu. Upp úr miðjum níunda áratugnum fór fyrirtækið að leggja fyrstu ljósleiðarana, þó eingöngu til innri nota á milli símstöðva sinna. Ljósleiðari þótti á þessum tíma dýr og flókin lausn, og ekki álitin raunhæf fyrir almenna notkun. En það átti eftir að breytast.
NATO-ljósleiðarinn breytti leiknum
Á árunum 1989–1992 varð mikilvægur vendipunktur þegar NATO-ljósleiðarinn var lagður í kringum Ísland. Markmiðið með honum var upphaflega að tengja ratsjárstöðvar NATO og bæta samskipti varnarliðsins á Íslandi. Þessi lagning varð þó einnig kveikjan að aukinni umræðu um möguleika ljósleiðarans til að flytja mikið magn gagna á miklum hraða.
Með þessari umræðu fór hugtakið „ljósleiðari“ að verða þekktara hjá almenningi, og fljótlega varð ljóst að tæknin væri lykillinn að háhraðatengingum og þeirri stafrænu framtíð sem nú er orðin að veruleika.
Net eða sími – ekki bæði!
Á tíunda áratugnum og fram á fyrstu ár þess tuttugasta og fyrsta var algengt að heimili þyrftu að velja hvort nota ætti símalínuna fyrir símtöl eða internetið. Þegar einhver fór á netið lokaðist sjálfkrafa fyrir símtöl inn og út af heimilinu, sem olli oft miklum pirringi og umræðum á heimilum landsins.
Dýrt samband við umheiminn
Ekki nóg með það, heldur voru netnotendur rukkaðir um svokölluð skrefagjöld. Það þýddi að heimili borguðu meira eftir því sem internetið var notað lengur í senn. Reikningarnir komu á þriggja mánaða fresti, og á sumum heimilum voru upphæðirnar ansi háar—sérstaklega ef einhver á heimilinu eyddi löngum stundum á netinu!
Það eru líklega fáir sem sakna þessara tíma.

Ljósleiðarinn eflir íslenskt samfélag – 1996 – 1998
Árið 1996 samþykkti Alþingi ný fjarskiptalög sem leiddu til þess að einkaréttur ríkisins á fjarskiptamarkaði var afnuminn ári síðar. Fram að þessu hafði Póstur og sími haft einkarétt á öllum símaviðskiptum og tengdum þjónustum á Íslandi.
Nýir tímar – GSM og samkeppni
Í kjölfarið urðu miklar breytingar. Ný fyrirtæki eins og Tal og Íslandssími hófu starfsemi sína, GSM-tæknin kom fram á sjónarsviðið og mikil gróska varð á fjarskiptamarkaðnum. Skyndilega voru gömlu risastóru bílasímarnir orðnir úreltir.
Framsýn Rafmagnsveita
Þetta var fyrir daga Orkuveitunnar, þegar Rafmagnsveita Reykjavíkur var enn sjálfstætt fyrirtæki. Rafmagnsveitan hóf að skoða möguleikana á því að leggja ljósleiðara hér á landi eftir að hafa fylgst með því hvernig orkufyrirtæki í Evrópu nýttu ljósleiðaratæknina. Árið 1998 gaf Rafmagnsveitan út mikilvæga skýrslu sem nefndist „Framsókn Rafmagnsveitu Reykjavíkur á fjarskiptasviðinu“. Þar voru settar fram skýrar hugmyndir um uppbyggingu ljósleiðarakerfis.
Samkeppnin harðnar
Um svipað leiti var Tal og Íslandssími stofnuð og samkeppnin á fjarskiptamarkaði varð enn meiri. Á þessum tíma byggði Landsíminn enn á gamla koparnetinu sínu fyrir símtöl og gagnasendingar. Hugmynd Rafmagnsveitunnar var hins vegar að nýta sína eigin innviði til að leggja ljósleiðara á milli dreifistöðva sinna. Þannig vildi Rafmagnsveitan búa til nýtt grunnnet sem gæti flutt gögn hraðar og á öruggari hátt en áður hafði þekkst—grunninn að því neti sem við þekkjum í dag sem Ljósleiðarann.

Stofnun Orkuveitunnar og fjórða veitan fæðist – 1999 – 2006
Þann 1. janúar 1999 var Orkuveita Reykjavíkur stofnuð með því markmiði að sameina rafmagns-, hita- og vatnsveitu í eina öfluga heild. Fljótlega kynnti Orkuveitan einnig áform um fjórðu veituna—gagnaveitu sem nýta myndi ljósleiðara til gagnaflutninga. Hugmyndin byggði á undirbúningsvinnu sem Rafmagnsveita Reykjavíkur hafði þegar hafið. Til þess verkefnis stofnaði Orkuveitan sérstakt dótturfyrirtæki, Línu.net, sem gekk skömmu síðar í samstarf við Íslandssíma um lagningu ljósleiðaragrunnnets.
Árið 2002 keypti Orkuveitan alla innviði Línu.net, bæði ljósleiðarana sjálfa og IP-netið sem fyrirtækið hafði byggt upp. Í kjölfarið var settur á laggirnar sérstakur samstarfshópur Orkuveitunnar og fyrirtækisins Ljósvirkinn. Hópurinn vann að ítarlegri áætlun um ljósleiðaravæðingu beint til heimila.
Ljósleiðarinn: Grunnstoð samfélagsins
Hugmyndin um fjórðu veituna byggði á þeirri framtíðarsýn að gagnaflutningur yrði jafn mikilvæg grunnþjónusta og rafmagn, vatn og hiti – sem hefur svo sannarlega ræst! Einnig sá fólk fyrir sér að ljósleiðaratæknin yrði lykillinn að því að Reykjavík og nágrannasveitarfélög gætu náð samkeppnisforskoti í Evrópu með háhraðanettengingum. Þessa sýn skjalfesti samstarfshópurinn árið 2003.
Reykjavík í fararbroddi
Fyrstu samningarnir um ljósleiðaravæðingu heimila voru gerðir árið 2004 við Akranes og Seltjarnarnesbæ, sem lagði grunninn að því verkefni sem nú er orðið að Ljósleiðaranum. Síðar keypti Orkuveitan alla ljósleiðara Íslandssíma og hóf markvisst að tengja heimili við ljósleiðarakerfið sitt.
Við lok árs 2006 höfðu þegar 6.444 heimili verið tengd ljósleiðara og ákveðið var að stofna sérstakt félag um rekstur gagnaveitunnar—Gagnaveitu Reykjavíkur, sem síðar varð Ljósleiðarinn.

Frá núlli í hátæknihöfuðborg á 10 árum – 2005 – 2015
Vissir þú að Reykjavík varð fullkomlega ljósleiðaravædd árið 2015? Á aðeins tíu árum tókst að tryggja borgarbúum eitt öflugasta net í heimi — Ljósleiðarann.
Frá upphafi var markmiðið skýrt: Reykjavík átti að verða hátæknihöfuðborg framtíðarinnar, þar sem öll heimili gætu notið fyrsta flokks netsambands með ljósleiðaratækni. Þetta háleita markmið hefur svo sannarlega ræst, enda er Ljósleiðarinn nú hornsteinn í daglegu lífi fólks, vinnu og afþreyingu.
Ísland fremst í stafrænum heimi
Samkvæmt skýrslu Fjarskiptastofu frá 2024 er Ísland fremst í flokki þegar kemur að háhraðanettengingum. Nánast öll íslensk heimili (99%) eru nú með hraða sem er að minnsta kosti 30 Mbit/sek, og flest geta notið niðurhalshraða allt að 1 Gíg!
Ljósleiðarinn gerir okkur kleift að tengjast betur, vinna hraðar og njóta skemmtunar án takmarkana—og við ætlum okkur áfram að vera brautryðjandi í stafrænni þróun.

Ný hugsun í fjarskiptum – 2007
Í apríl 2007 varð mikilvægur vendipunktur í sögu Ljósleiðarans. Þá samþykkti nýstofnað fyrirtæki, Nova, tilboð Ljósleiðarans um að byggja upp burðarnet fyrir farsímasenda fyrirtækisins. Nova var nýtt fyrirtæki á íslenskum fjarskiptamarkaði og hafði þann skýra tilgang að verða óháð samkeppnisaðilum sínum frá upphafi.
Nova fór í loftið síðar sama ár og kynnti um leið nýtt viðskiptamódel sem höfðaði sérstaklega til yngri kynslóðarinnar. Nova nýtti grunnnet Ljósleiðarans fyrir sína þriðju kynslóð farsímatækni (3G), og bauð viðskiptavinum sínum aðgang að föstum hraða án þess að rukka sérstaklega fyrir gagnamagnið sjálft – nálgun sem var byltingarkennd á sínum tíma.
Endir gagnamagnsstríðsins
Á þessum árum var mikil umræða um verðlagningu gagnamagns á Íslandi, þar sem ríkjandi hugmyndafræði var sú að rukka bæði fyrir vegalengd og gagnamagn. Þetta hafði mikil áhrif á fjölmiðla sem þurftu að dreifa útvarps- og sjónvarpsefni um landið, sérstaklega sjónvarpsefni sem krefst mikils gagnaflutnings.
Þessi gamla nálgun líkist því sem við þekkjum í dag þegar við erum stödd utan Evrópu með farsíma okkar – við borgum sérstaklega fyrir gagnamagnið sem við notum. Nova og Ljósleiðarinn ákváðu hins vegar að fara nýjar leiðir og skapa þannig meiri sveigjanleika og gagnsæi á íslenska fjarskiptamarkaðnum.
Framtíðarsýn sem rættist
Árið 2004 hafði Innviðaráðuneytið þegar bent á mikilvægi 3G-tækninnar og spáð því að hún myndi leysa eldri farsímatækni af hólmi, enda opnaði hún möguleika á mun meiri gagnahraða og nýjum samskiptaleiðum. Með samstarfi sínu voru Nova og Ljósleiðarinn brautryðjendur í að gera þessa spá að veruleika. Þannig gerir Ljósleiðarinn allt mögulegt mögulegt.

Hverju hefur Ljósleiðarinn breytt fyrir meðal notanda?
Ísland í fremstu röð í heiminum
Ljósleiðaravæðing Íslands hefur breytt miklu fyrir okkur öll. Íslendingar njóta í dag mun meiri lífsgæða þökk sé greiðu aðgengi að háhraðaneti. Ísland hefur verið í fararbroddi í Evrópu og raðað sér reglulega í fjórða til fimmta sæti á heimsvísu þegar kemur að aðgengi að háhraðatengingum.
Meira en bara aðgangur – raunveruleg nýting skiptir máli
En það sem skiptir kannski enn meira máli er að Íslendingar nýta sér ljósleiðarann í meira mæli en aðrar þjóðir. Munurinn á því að hafa aðgang og nýta sér hann er sá að hér nýta flest heimili ljósleiðara virkilega í sínu daglega lífi—hvort sem það er fyrir vinnu, nám eða afþreyingu.
Samkeppnin á þessum markaði hefur einnig verið mikilvæg fyrir almenning því hún hefur tryggt sanngjarnt verð. Þannig er kostnaðurinn fyrir meðalheimilið lægri en ella hefði orðið og Íslendingar fá meiri gæði fyrir peninginn sinn.
Ljósleiðarinn er orðinn mikilvæg grunnstoð samfélagsins og því er það mikilvægt að hann sé í eigu okkar allra.

Hvað er framundan í ljósleiðaratækninni?
Er það hraðinn sem skiptir máli?
Í dag njóta flest heimili á Íslandi aðgangs að hraðvirku neti með ljósleiðaratækni. Þessi háhraðatenging tryggir að hraði eða bandvídd eru ekki lengur takmarkandi þættir fyrir gæði netsins. Þrátt fyrir það upplifa mörg heimili enn áskoranir þegar kemur að gæðum netsambands innan heimilisins.
Þráðlaus vandamál innan heimilisins
Ástæðan er einföld: Við erum hætt að tengja tækin okkar beint með koparsnúru og kjósum heldur þráðlaust net. Á heimilinu eru oft margar tölvur, símar og sjónvörp tengd þráðlaust í gegnum einn og sama router. Þar liggur vandamálið oft, ekki í ljósleiðaranum sjálfum heldur í netbeininum (e. router) og staðsetningu hans innan heimilisins. Þykkir veggir úr steinsteypu eða jafnvel gler veldur því að á mörgum heimilum myndast svokölluð skuggasvæði þar sem þráðlausa netið nær illa til, eða alls ekki.
Þó þráðlaus tækni hafi tekið miklum framförum undanfarna áratugi, þarf enn að huga vel að því hvar þráðlausi búnaðurinn er staðsettur. Þekking á réttri staðsetningu og tengingum er lykilatriði til að ná sem bestum árangri og upplifun af netinu.
Ljósleiðarinn tilbúinn fyrir framtíðina
Ljósleiðarinn er tilbúinn að mæta aukinni eftirspurn eftir enn meiri hraða ef þörf fyrir slíkt skapast. Þrátt fyrir að fá heimili, eða vel innan við eitt prósent, hafi hingað til sýnt þörf fyrir meira en 1 gíg tengingarhraða í dag, býður Ljósleiðarinn nú þegar upp á allt að 10 gíg tengingu fyrir þau heimili sem þurfa það.
Við horfum til framtíðar og tryggjum að heimilin fái áfram fyrsta flokks nettengingar – óháð því hvernig notkun okkar þróast.

Ljósleiðarinn – framsýnt félag fyrir íslenskt samfélag
Í eigu okkar allra
Ljósleiðarinn er fyrirtæki sprottið úr íslensku hugviti og er alfarið í almannaeigu, undir hatti Orkuveitunnar. Það þýðir að félagið er í eigu allra íbúa Reykjavíkurborgar, Akraness og Borgarbyggðar.
Meira en bara netsamband
Við byggjum upp öfluga og nútímalega innviði sem efla allt íslenskt samfélag, auka lífsgæði fólks og styðja við atvinnulíf og nýsköpun um allt land. Ljósleiðarinn er ekki einungis þjónustufyrirtæki heldur samfélagsleg auðlind sem leggur áherslu á að veita góða þjónustu á sanngjörnu verði.
Framtíð sem öll hafa jafnan aðgang að
Við leggjum okkur sérstaklega fram við að byggja upp innviði framtíðarinnar, öflugt gæðasamband sem opnar á ný tækifæri fyrir einstaklinga, fjölskyldur, fyrirtæki og stofnanir. Með því tryggjum við að Ísland verði áfram í fremstu röð í stafrænni þróun, þar sem öll eiga jafnan aðgang að þeim tækifærum sem framtíðin ber í skauti sér.
Ljósleiðarinn eflir íslenskt samfélag.

Ljósleiðari í hnotskurn
Vissir þú að ljósleiðari er ein besta leiðin til að senda upplýsingar um langar vegalengdir? Ástæðan er einföld: ljósleiðarar senda merki með ljósi í stað rafmagns, eins og hefðbundnir koparstrengir gera. Kopar hefur nefnilega takmarkaða getu til að flytja upplýsingar og því lengri sem leiðslan er, því minna merki kemst í gegn. Með ljósleiðara þarf ekki að hafa áhyggjur af slíku.
Í ljósleiðara eru merkin send með leysigeisla á mismunandi tíðnum. Það þýðir að hægt er að senda mörg mismunandi merki á sama tíma í gegnum einn ljósleiðara. Þess vegna getur ljósleiðari flutt margfalt meiri upplýsingar og á miklu meiri hraða en koparstrengir gætu nokkurn tímann gert.
Koparinn var alltaf vandamál
Þegar símafyrirtækin notuðu kopar þurftu þau stöðugt að stytta vegalengdina milli notanda og búnaðar til að fá sæmilegan hraða. Þetta er einmitt ástæðan fyrir öllum götuskápunum sem voru settir upp í hverfum — búnaðurinn þurfti alltaf að vera nær heimilinu til að ná góðu sambandi. Ljósleiðari drífur 40-80 km án þess að tapa gæðum á meðan koparinn nær 100-800 m og gæðatap eykst eftir því sem vegalengdin er meiri.
Ljósleiðarar hafa ekki þessi takmörk. Með því að skipta um búnað á enda ljósleiðarans er hægt að auka styrk ljósmerkisins og senda merkið enn lengra. Þannig getur ljósleiðari auðveldlega flutt merki kílómetra eða jafnvel tugi kílómetra án þess að missa gæði.
Ljós þarf ekki leyfi
Annar stór kostur ljósleiðarans, umfram Wi-Fi, er að hann notar ekki tíðnirófið í loftinu, sem er mjög takmörkuð auðlind. Wi-Fi notar loftið til að senda gögn með rafsegulbylgjum. Þessar bylgjur nota ákveðnar tíðnir (t.d. 2,4 GHz eða 5 GHz). Til þess að nota loftið fyrir útvarp, sjónvarp eða farsíma þarf alltaf leyfi frá Fjarskiptastofu. Tíðnisvið ljósleiðara er hins vegar alfarið okkar og við þurfum ekkert leyfi fyrir því. Af hverju? Vegna þess að ljósleiðarinn notar ljós en ekki rafboð.
Töluvert umhverfisvænni kostur
Ljósleiðari er ekki bara hraðari og áreiðanlegri en kopar – hann er líka mun umhverfisvænni kostur. Við framleiðslu ljósleiðara myndast allt að 50–75% minna kolefnisspor en við framleiðslu koparstrengja. En stærsti munurinn kemur í rekstri: Ljósleiðari notar 80–90% minna rafmagn við gagnaflutning en kopar, þar sem ljósmerki tapa nær engri orku á leiðinni.
Þegar litið er á allan líftíma netkerfa, frá uppsetningu til daglegs reksturs, getur ljósleiðari dregið úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda um 60–70% miðað við hefðbundna koparlausn. Ljósleiðari er því ekki aðeins tæknilega betri – hann er líka skref í átt að sjálfbærari og orkusparandi fjarskiptainnviðum.
Engin þörf á að grafa upp götuna
Þá má ekki gleyma því að ljósleiðari er lagður í rör undir jörðinni. Ef ljósleiðarinn skemmist eða ef það þarf að skipta honum út þarf ekki að grafa upp alla götuna. Það er einfaldlega hægt að draga nýjan streng í gegnum rörið sem er nú þegar til staðar.
Margfalt betri endingartími og afköst
Ljósleiðari hefur mun lengri endingartíma en kopar. Ljósleiðari er úr gleri sem brotnar ekki niður eins og málmar. Ljósleiðari leiðir ekki rafmagn, svo hann er ónæmur fyrir eldingum, raftruflunum og oxun. Ljósleiðari ryðgar ekki og krefst minna viðhalds.
30 ára ljósleiðari, enn í fullum gír
Dæmi um góða endingu ljósleiðara er NATO-ljósleiðarinn sem lagður var í kringum Ísland árið 1989–1992. Sá ljósleiðari er enn í fullri notkun eftir meira en þrjátíu ár. Með nýjustu tækni er nú hægt að senda mörg hundruð gíg af upplýsingum í gegnum hann — meira en nokkurn hefði órað fyrir þegar hann var fyrst settur niður.
