Stofnun Orkuveitunnar og fjórða veitan
24. ágúst 2025
24. ágúst 2025
Orkuveitan stofnuð – fjórða veitan fæðist
Þann 1. janúar 1999 var Orkuveita Reykjavíkur stofnuð með því markmiði að sameina rafmagns-, hita- og vatnsveitu í eina öfluga heild. Fljótlega kynnti Orkuveitan einnig áform um fjórðu veituna – gagnaveitu sem nýta myndi ljósleiðara til gagnaflutninga. Hugmyndin byggði á undirbúningsvinnu sem Rafmagnsveita Reykjavíkur hafði þegar hafið. Til þess verkefnis stofnaði Orkuveitan sérstakt dótturfyrirtæki, Línu.net, sem gekk skömmu síðar í samstarf við Íslandssíma um lagningu ljósleiðaragrunnnets.
Árið 2002 keypti Orkuveitan alla innviði Línu.net, bæði ljósleiðarana sjálfa og IP-netið sem fyrirtækið hafði byggt upp. Í kjölfarið var settur á laggirnar sérstakur samstarfshópur Orkuveitunnar og fyrirtækisins Ljósvirkinn. Hópurinn vann að ítarlegri áætlun um ljósleiðaravæðingu beint til heimila.
Mynd frá fyrstu skóflustungunni að ljósleiðaragrunnneti Ljósleiðarans
Ljósleiðarinn: Grunnstoð samfélagsins
Hugmyndin um fjórðu veituna byggði á þeirri framtíðarsýn að gagnaflutningur yrði jafn mikilvæg grunnþjónusta og rafmagn, vatn og hiti – sem hefur svo sannarlega ræst! Einnig sá fólk fyrir sér að ljósleiðaratæknin yrði lykillinn að því að Reykjavík og nágrannasveitarfélög gætu náð samkeppnisforskoti í Evrópu með háhraðanettengingum. Þessa sýn skjalfesti samstarfshópurinn árið 2003.
Reykjavík í fararbroddi
Fyrstu samningarnir um ljósleiðaravæðingu heimila voru gerðir árið 2004 við Akranes og Seltjarnarnesbæ, sem lagði grunninn að því verkefni sem nú er orðið að Ljósleiðaranum. Síðar keypti Orkuveitan alla ljósleiðara Íslandssíma og hóf markvisst að tengja heimili við ljósleiðarakerfið sitt.
Við lok árs 2006 höfðu þegar 6.444 heimili verið tengd ljósleiðara og ákveðið var að stofna sérstakt félag um rekstur gagnaveitunnar – Gagnaveitu Reykjavíkur, sem síðar varð Ljósleiðarinn.
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.