Rafíþróttakrakkar troðfylltu Egilshöllina

6. nóvember 2024

KIA Haustmótið hófst um helgina þegar eldhressir krakkar í yngri flokki, 8-12 ára, troðfylltu Next Level Gaming í Egilshöll og kepptu í hinum vinsælu leikjum Fortnite og Roblox.

Mótið heldur síðan áfram helgina 9. – 10. nóvember þegar eldri flokkur, 13-16 ára, fær kærkomið tækifæri til að hittast og etja kappi í meðal annars Valorant og Fortnite.

„Við hjá Ljósleiðaranum höfum í gegnum árin stutt vel við rafíþróttir enda teljum við það afar mikilvægt. Greinin er ekki bara vaxandi um allan heim heldur er starfið hérna heima gríðarlega öflugt. Rafíþróttasambandið er með flottar áherslur til að hvetja ungt fólk til að stunda rafíþróttir á heilbrigðan og uppbyggilegan hátt og við viljum halda áfram að taka þátt í þeirri vegferð,“ segir Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.

„Ungmennamótin eru einn mikilvægasti þátturinn í starfi Rafíþróttasambandsins þar sem allt miðar að heilbrigðri og uppbyggilegri nálgun á tölvuleiki. Mótin eru líka eitt besta og raunverulegasta dæmið um þá jákvæðu og uppbyggilegu stemningu sem RÍSÍ leggur áherslu á í kringum rafíþróttaiðkun barna og unglinga,“ segir Jökull Jóhannsson, framkvæmdastjóri Rafíþróttasambands Íslands, og bætir við að fátt jafnast á við það að koma á ungmennamótin og sjá rafíþróttastarf RÍSÍ bókstaflega lifna við þegar slíkur fjöldi krakka kemur saman til þess að njóta þess að spila saman.

Krakkarnir mættu einbeitt og ákveðin til leiks en gleðin var þó við völd allan tímann og náði hámarki við verðlaunaafhendinguna á sunnudeginum þegar Ásmundur Einar Daðason, ráðherra mennta- og barnamála, keyrði upp stemninguna og verðlaunaði Fortnite keppendurna.

 

 

 

 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.