Miklar framkvæmdir og fleiri viðskiptavinir

31. ágúst 2018

Sumarið var annríkt hjá okkur hjá Gagnaveitu Reykjavíkur og verktökunum okkar, sem létu svo sannarlega hendur standa fram úr ermum.

Á þessu ári munum við klára að tengja öll heimili á höfuðborgarsvæðinu og sjáum fyrir endann á þessu heilmikla átaki og tengjum síðustu heimilin í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi og í Mosfellsbæ.

Í vor var tekin ákvörðun um að íbúar í Reykjanesbæ, Árborg og Vogum munu verða næstir til að fá Ljósleiðarann tengdan við sín heimili.

Míla og Gagnaveita Reykjavíkur máttu samnýta framkvæmdir

Í vor samþykkti Samkeppniseftirlitið  að heimila Gagnaveitu Reykjavíkur og Mílu að samnýta jarðvegsframkvæmdir við lagningu ljósleiðara á ákveðnum svæðum, með von um hagkvæmari fjárfestingar, neytendum til hagsbóta. Þetta þýðir að hraði í uppbyggingu ljósleiðara alla leið mun aukast og munu heimili eiga kost á tengingu frá tveimur aðilum á sama tíma.

PFS dæmir neytendum í hag

Póst- og fjarskiptastofnun tók tímamótaákvörðun í langvinnri deilu fjarskiptafyrirtækja. Niðurstaðan var neytendum í vil og í framhaldinu gefst viðskiptavinum Gagnaveitu Reykjavíkur nú kostur á að kaupa sér áskrift að Sjónvarpi Símans og teljum við það skref í rétta átt.

Metár í tengdum heimilum

Ef við horfum aftur til ársins 2017 sem var býsna gott í rekstri Gagnaveitu Reykjavíkur, tengdust 10.906 heimili Ljósleiðaranum það ár. Það varð metár okkar í tengdum heimilum, sem slær þá út árið þar á undan. Samhliða fjölgun viðskiptavina hafa tekjur aukist. Þær voru 2,1 milljarður króna 2017, jukust um 321 milljón frá árinu áður eða 18%. Á sama tíma jókst rekstrarkostnaður um 7%, eða tæpar 60 milljónir. Af þeim voru 34 milljónir einskiptiskostnaður vegna uppgjörs við lífeyrissjóð. Við erum býsna sátt við þau tök sem við höfum á rekstrinum. Framlegðin 2017 var 1,2 milljarðar og jókst hún um meira en fjórðung frá 2016 þegar EBITDA nam um 960 milljónum króna. Á árinu 2017 var fjárfest fyrir 3,2 milljarða króna og hagnaður ársins fyrir tekjuskatt nam 43 milljónum. Vegna niðurfærslu á skattalegri inneign varð  heildarniðurstaða ársins neikvæð um 99,9 milljónir króna.

Miðað við stöðuna í dag, horfum við fram á að heildarniðurstaða 2018 verði jákvæð í árslok, þrátt fyrir allar þær fjárfestingar sem við stöndum í á árinu til að ljúka við ljósleiðaratengingu allra heimila í þéttbýli höfuðborgarsvæðisins.

Eitt gíg til 96% heimila

Það er ekki langt síðan við hlustuðum á skruðninga og skræka hringitóna við að tengjast með 56 kílóbita á sekúndu bara til þess eins að horfa á ljósmyndir hlaðast niður eins og Tetris kubba á fyrsta stigi. Nú er öflugt gæðasamband heimila sjálfsagður hlutur eins og súrefni og vatn. Í dag streymum við sjónvarpsþáttum í UHD háskerpu frá öðrum löndum á augnabliki og nýtum okkur kosti stafrænnar þjónustu hvern einasta dag. Þróun Ljósleiðarans á hlut í þessari upplifun sem hefur náð að hlaupa á undan þörfum nútímans.

  • Árið 2007 þegar Gagnaveita Reykjavíkur fór af stað með Ljósleiðarann, bauð hann upp á 100 megabita flutningshraða í báðar áttir
  • Árið 2016 hóf Gagnaveita Reykjavíkur að bjóða upp á Eitt gíg samband, 1000 megabita flutningshraða í báðar áttir á Ljósleiðaranum.
  • Um mitt ár 2018 voru 96% allra viðskiptavina Gagnaveitu Reykjavíkur með Eitt gíg

Gæðasamband heimila er ein af grunnstoðum lífsgæða sem styður við stafræna upplifun okkar allra. Stefna Gagnaveitu Reykjavíkur er að byggja upp og styðja við þessa innviði.

Erling Freyr Guðmundsson
Framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.