Metþátttaka í Ljósleiðaradeildinni

30. október 2024

Haustið 2024 hefur markað spennandi tímabil fyrir íslenskar rafíþróttir, en í haust skráðu sig 61 lið til leiks í Íslandsmeistaramótinu í CS2 sem í ár er með auknu verðlaunafé. Í Ljósleiðaradeildinni, sem hófst í september, hafa lið keppt í alls sex deildum, frá Ljósleiðaradeildinni niður í sjöttu deild. Þetta hefur því verið metár í þátttöku, með fleiri lið en nokkru sinni fyrr skráð til keppni.

Þessi metþátttaka endurspeglar vaxandi áhuga á rafíþróttum á Íslandi og sýnir hversu mikilvægur vettvangur rafíþróttir eru orðnar fyrir ungt fólk. Auk þess hefur stuðningur við keppnina aukist, bæði frá samfélaginu og styrktaraðilum, sem hafa komið að með verðlaunafé og öðrum styrkveitingum. Ljósleiðarinn er virkilega stoltur aðalstyrktaraðili deildarinnar sem Rafíþróttasamband Íslands (RÍSÍ) stendur fyrir og telur mikilvægt að styðja við þessa vaxandi íþrótt.

Í haust hafa verið virkilega spennandi uppgjör milli liðanna, þar sem bestu CS2 liðin á Íslandi hafa mætt til leiks með það að markmiði að tryggja sér sigur í Ljósleiðaradeildinni.

Síðasta umferð Ljósleiðaradeildarinnar er hafin og annað kvöld mun Ragnhildur Thorlacius, lögfræðingur Ljósleiðarans, mæta í útsendingu þegar m.a. Þór mætir Dusty og spjalla um Ljósleiðarann og hans aðkomu að rafíþróttum á Íslandi.

Úrslitakvöld Ljósleiðaradeildarinnar verður þann 16.nóvember og við hlökkum til að fylgjast með endaspretti deildarinnar.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.