Ljósleiðarinn þátttakandi í Stelpur, stálp og tækni

27. maí 2025

Í síðastliðinni viku tók Ljósleiðarinn, ásamt öðrum dótturfélögum Orkuveitunnar, á móti 200 stelpum og stálpum í 9. bekk í Elliðaárstöð sem hluta af alþjóðlega verkefninu Girls in ICT sem Háskólinn í Reykjavík heldur utan um á Íslandi. Viðburðurinn Stelpur, stálp og tækni hefur það að markmiði að auka áhuga ungra kvenna og kvára á tæknigreinum.
Fjölmörg fyrirtæki tóku á móti gestum þennan dag en Orkuveitan og dótturfélögin sem eru leiðandi í vísindamiðlun, tóku á móti langflestum gestum. Stelpur, stálp og tækni hjá Orkuveitunni er hluti af verkefninu Iðnir og tækni sem hefur unnið að því að auka áhuga á iðn og tæknigreinum frá árinu 2015. Með þátttökunni styðjum við á einstakan hátt að því að auka aðsókn kvenna og kvára að tæknigreinum og vinnur gegn staðalmyndum.
Hjá Ljósleiðaranum fengu nemendur að prufa að splæsa Ljósleiðara og hugbúnaðarteymið okkar kenndi krökkunum að nota forritun til að taka mynd!
Frábært starfsfólk úr röðum Ljósleiðarans stóð vaktina á okkar bás og við sendum þeim kærar þakkir fyrir virkilega vel heppnaðan dag. Þetta er gríðarlega mikilvægur vettvangur til að auka aðsókn kvenna og kvára í tæknigreinar og jafnframt byggja upp fjölbreyttan hóp framtíðar starfsfólks.

Að taka á móti 200 fimmtán ára stelpum og stálpum og sýna þeim að þau geti unnið í orkugeiranum er ekki bara fræðsla — það er framtíðarsýn í framkvæmd. Þetta er mikilvægt framlag í að byggja upp fjölbreyttan hóp framtíðar starfsfólks þar sem kraftar og hæfileikar allra eru virkjaðir til að móta sjálfbært samfélag.

Takk fyrir frábæran dag!

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.