Ljósleiðarinn þakkar hvatninguna

28. apríl 2023

Við hjá Ljósleiðaranum höfum staðið í stórræðum um hríð. Við höfum tengt heimili og fjölda fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu beint við þessa öflugustu fjarskiptatengingu sem í boði er, auk þónokkurra þéttbýlisstaða á sunnan- og vestanverðu landinu. Á síðasta ári treystum við burðarnetið okkar með nokkrum stefnumarkandi samningum til þess að geta betur þjónað okkar stærstu viðskiptavinum, sem eru fjarskiptafélög sem sjá um smásölu á fjarskiptamarkaði. Samningarnir voru meðal annars við utanríkisráðuneytið um þræði í svokölluðum NATO-streng umhverfis landið, Farice, sem tengir okkur við útlönd og svo keyptum við stofnnet Sýnar til að geta betur þjónað farsímakerfunum. Gagnaumferðin á milli farsímamastranna og farsímakerfa fer öll um ljósleiðara og er að aukast gríðarlega með örri uppfærslu kerfanna í 5G kerfi. Síðastnefndi samningurinn er til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu en staðfesting þess er síðasti fyrirvarinn sem eftir stendur nú þegar fyrirvörum um fjármögnun og áreiðanleikakönnun hefur verið aflétt.

Ísland á toppnum í Evrópu
Framtak Ljósleiðarans hefur skilað því að fjórða árið í röð heldur Ísland toppsæti sínu sem það Evrópuland þar sem hæst hlutfall heimila nýtir sér ljósleiðaratengingu til að uppfylla gagnaflutningsþörf heimilisins. Þetta var kynnt á árlegum fundi Fibre to the Home Council Europe í síðustu viku. Þessar afbragðsgóðu viðtökur Íslendinga við ljósleiðaratengingum færir Ljósleiðaranum vitaskuld verulegar og stöðugar tekjur og fjárhagurinn hefur styrkst til samræmis.
Staða fjarskiptamála hér á landi er virkilega eftirsóknarverð, ekki síst nú þegar hver tæknibyltingin rekur aðra sem byggist á hröðum flutningi gagna. Þessi staða Íslands innan Evrópu og heimsins alls kom ekki af sjálfu sér. Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur sýndu í senn framsýni og frumkvæði þegar þeir tóku forystu um ljósleiðaravæðingu landsins. Þrautseigja og staðföst trú á það sem í gamla daga var kallað upplýsingatæknisamfélagið hefur skilað okkur á þennan stað.

Áframhaldandi sókn
Það er í raun bara rétt farið að glitta í tækifærin í snjallvæðingu og nú síðast með hagnýtingu gervigreindar. Kröftug og góð samkeppni fjarskiptafyrirtækja sem byggja þjónustu sína á öflugum innviðum er forsenda þess að sem flest fái notið góðs af miklum tækniframförum. Þess vegna er Ljósleiðarinn áfram í sókn.
Við í stjórn Ljósleiðarans lögðum til við okkar hluthafa, Orkuveitu Reykjavíkur, að sótt yrði nýtt hlutafé til að treysta undirstöður sóknar okkar. Það var samþykkt og málið gekk frá hluthafafundi til sveitarfélaganna þriggja sem eiga OR. Eftir ítarlega rýni liggja nú fyrir jákvæðar undirtektir hjá þeim öllum, þ.e. sveitarstjórn Borgarbyggðar, bæjarstjórn Akraness og borgarráðs Reykjavíkur en afgreiðsla þess verður til umfjöllunar í borgarstjórn á næstu dögum. Mér fannst sérstaklega vænt um einróma bókun bæjarstjórnar Akraness. Í henni segir:

Bæjarstjórn Akraness fagnar þeim framfarahug sem birtist í framlagðri samþykkt hlutahafafundar Ljósleiðarans ehf. 24. október 2022 um aukningu hlutafjár til að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækisins enn frekar og efla þar með í senn samkeppnisstöðu Íslands, fjarskiptaöryggi landsins og öryggi fjarskipta í landinu. Íbúar Akraness voru á meðal þeirra alfyrstu á Íslandi til að njóta ljósleiðaratenginga til heimila sinna og þekkja því vel til þeirrar aukningar lífsgæða sem öflugar og traustar fjarskiptatengingar bera með sér.
Bæjarstjórn Akraness þakkar fyrir þær ítarlegu greiningar og gögn sem hafa verið lagðar fram til að undirbyggja ákvarðanir eigenda Orkuveitu Reykjavíkur í þessu mikilvæga máli fyrir íslenskt samfélag.

Takk fyrir hvatninguna.

Birna Bragadóttir, formaður stjórnar Ljósleiðarans.

 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.