Ljósleiðarinn styrkir tengsl við Tækniskólann
12. desember 2024
12. desember 2024
Mikilvægur hluti af stefnu Ljósleiðarans er að byggja upp sterkt samstarf við menntastofnanir og tryggja nýliðun í greininni. Í haust tók Ljósleiðarinn þátt í Tækniskóladeginum þar sem nemendum gafst færi á að koma í heimsókn á starfstöðvar Ljósleiðarans og sjá hvernig hluti starfseminnar fer fram. Dagurinn tókst virkilega vel, Ljósleiðarinn tók á móti stórum hópi áhugasamra nemenda og gafst okkur tækifæri til að efla enn frekar tengsl okkar við skólann og nemendurna.
Á dögunum hafði Tækniskólinn samband við Davíð Kristjánsson, leiðtoga afhendinga þjónustu hjá Ljósleiðaranum, og bauð honum í heimsókn í skólann. Þar hitti Davíð nemendur sem eru að ljúka grunndeild og kynnti fyrir þeim starfsemi Ljósleiðarans. Nemendur fengu einnig að spreyta sig á að splæsa ljósleiðara sem þau sýndu mikinn áhuga á.
Í vikunni tók Ljósleiðarinn svo á móti Hildi Ingvarsdóttur, skólameistara Tækniskólans, ásamt Einari Gunnari Guðmundssyni og Karli Viðari Grétarssyni kennurum við skólann.
Þar tóku fulltrúar skólans á móti splæsivél sem gjöf frá Ljósleiðaranum til að styðja enn frekar við nám og kennslu í Tækniskólanum. Með gjöfinni vill Ljósleiðarinn stuðla að aukinni færni nemenda í verklegri þjálfun og gera þeim kleift að tileinka sér þá tækni sem krafist er í atvinnulífinu.
Með því að efla tenginguna við Tækniskólann fáum við tækifæri til að kynna vinnustaðinn fyrir mikilvægum hópi af mögulegu framtíðar starfsfólki okkar og stuðlum jafnframt að því að komandi kynslóðir séu vel undirbúnar fyrir þau tækifæri sem eru framundan í fjarskiptum og upplýsingatækni.
Við hlökkum til að vinna áfram með Tækniskólanum að því að skapa framtíð fyrir bæði iðnaðinn og nemendur.
Frá heimsókn Davíðs Kristjánssonar í Tækniskólann, nóvember 2024.
Frá Tækniskóladeginum og heimsókn nemenda í starfsstöðvar Ljósleiðarans, október 2024.
Frá heimsókn Tækniskólafulltrúa til Ljósleiðarans: Sindri Már Björnsson og Davíð Kristjánsson frá Ljósleiðaranum, Karl Viðar Grétarsson, Einar Gunnar Guðmundsson og Hildur Ingvarsdóttir frá Tækniskólanum, desember 2024.
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.