Ljósleiðarinn og Tölvun í samstarf um fjarskiptaþjónustu á ljósleiðarakerfi Eyglóar

8. júlí 2024

Ljósleiðarinn og Tölvun ehf. hafa hafið samstarf með það að markmiði að bjóða fjarskiptaþjónustu til heimila og fyrirtækja á kerfi Eyglóar í Vestmannaeyjum. Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, segir samkeppni lykilatriði í ljósleiðaramálum. Davíð Guðmundsson, eigandi Tölvunar hf., segir Ljósleiðarann traustan samstarfsaðila sem tryggir Vestmannaeyingum hnökralaust samband.

Vestmannaeyjabær fór áður í útboð vegna heimilistenginga í Eyjum á fjarskiptamarkaði. Útboðið endaði með því að bærinn sjálfur byggði upp kerfið Eygló. Grunnupplegg ljósleiðaralagna Eyglóar er stjörnutengt net, einn þráður á hvert heimili frá ljósmiðju, sem er svipað því og Ljósleiðarinn leggur áherslu á.

Bærinn lagði þannig á sínum tíma ekki búnað heldur bara ljósið í jörðina og fjarskiptafélögin þurfa að sjá um að tengjast því neti.

Davíð fagnar því samstarfinu við Ljósleiðarann. Hann segir Ljósleiðarann sterkan bakhjarl sem komi inn með gríðarlega þekkingu og öflugan búnað. Hann telur það löngu tímabært að bjóða Vestmannaeyingum upp á þann hraða sem aðrir á landinu búa við.

Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, segir fyrirtækið gera sér grein fyrir því að vöruframboð og gæði þjónustu á landsbyggðinni sé ábótavant og því hafi Ljósleiðarinn verið að bæta úr víða.

„Við viljum gera öllum fjarskiptafélögunum kleift að selja sínar áskriftir inn á ljósleiðaranet sem sveitarfélög hafa verið að byggja upp með öflugum hætti á undanförnum árum. Við hlökkum því til samstarfsins og að geta boðið Eyjamönnum upp á alvöru samkeppni þegar kemur að ljósleiðaratengingum,“ segir Einar.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.