Ljósleiðarinn og Míla ná sáttum vegna nýtingu röra
13. júní 2024
13. júní 2024
Í anda nýrra fjarskiptalaga, þar sem innviðafyrirtæki eru hvött til þess að vinna saman að uppbyggingu innviða í jörðu, hafa Ljósleiðarinn og Míla náð sáttum vegna nýtingu röra, eða í „röramálinu“ svokallaða. Í stuttu máli hefur verið uppi ágreiningur um það hvort Orkuveita Reykjavíkur eða Landsími Íslands hf. hafi lagt ákveðin rör á sínum tíma sem í dag eru nýtt fyrir ljósleiðarastrengi. Um er að ræða rör sem fóru ofan í jörðu á árabilinu 2002 til 2010.
„Á þessum tíma var ekki jafn skipulagt verklag, og skráningar í kringum lagningu ljósleiðara og þess vegna kemur þessi staða upp. Í dag vinna þessi fyrirtæki, innviðafyrirtæki á fjarskiptamarkaði, saman þegar kemur að þessu í anda fjarskiptalaga. Sáttin felst í því að Ljósleiðaranum er heimilt að nota þessi rör undir sína þræði og greiðum við ákveðna upphæð til Mílu fyrir það. Þetta var flókið mál sem við náðum að leysa saman. Mestu máli skiptir að halda áfram uppbyggingu okkar á ljósleiðara í landinu,“ segir Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.