Ljósleiðarinn í samstarf við Nokia

12. september 2022

Ljósleiðarinn mun nota bylgjulengdarbúnað frá Nokia til að byggja upp nýtt stofnnet fyrir internetþjónustu víða um land, 5G-farsímakerfi og aðra tækni framtíðar. 

Ljósleiðarinn hefur kynnt áform sín um nýjan landshring fjarskipta og hefur samið við Nokia um kaup á bylgjulengdarbúnaði frá fyrirtækinu. Búnaðurinn, sem stýrir gagnaumferð um ljósleiðarakerfi, er mikilvæg stoð fyrir yfirstandandi uppfærslu farsímakerfa í 5G, frekari ljósleiðaravæðingu heimila, fyrirtækja og stofnana og eflir getu ljósleiðara til að sinna þörfum gagnavera og slíkra stórnotenda gagnaflutningskerfa. 

Lausnir Nokia, tæknilegs samstarfsaðila Ljósleiðarans, munu tryggja afkastagetu í fremsta flokki, aukna bandbreidd, nútímalega þjónustu og efla samkeppni á fjarskiptamarkaði. Nokia tilkynnti í dag að Ljósleiðarinn muni nota bylgjulengdarbúnað fyrirtækisins til að efla þjónustu á ljósleiðarakerfi Ljósleiðarans vítt og breitt um landið. Ljósleiðarinn rekur stofnnet sem þjónar fjarskiptafyrirtækjum, þar á meðal tveimur af þremur 5G farsímafyrirtækjum á landinu, og er búnaðinum ætlað að mæta framtíðar þörfum þeirra.

Bylgjulengdarbúnaðurinn mun gera Ljósleiðaranum kleift að hámarka nýtingu ljósleiðarainnviða á sama tíma og hann styður 8 Terabita flutningsgetu í upphafi með framtíðaruppfærslu upp í 19,2 Terabita og síðar enn meiri getu.  Nýi búnaðurinn gerir Ljósleiðaranum kleift að auka flutningsgetu á hagkvæman og sjálfbæran hátt, því með honum er rekstrarkostnaði haldið í lágmarki og orkunotkun sömuleiðis.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, segir fyrirtækið, sem rekur opið grunnnet fjarskipta, vera sem óðast að byggja upp nýtt stofnnet sem mæti vaxandi kröfum frá fjarskiptafélögum og öðrum viðskiptavinum í heildsölu.

„Með uppbyggingu á stofnneti Ljósleiðarans styðjum við 5G uppbyggingu og framtíðartækni, einbeitum okkur að því að mynda samstarf við þjónustuaðila með gæðakerfi og þjónustu fyrir neytendur og fyrirtæki. Samstarfið við Nokia gerir okkur kleift að nota nýjustu tækni og lausnir til að veita viðskiptavinum Ljósleiðarans bestu mögulegu þjónustu,“ segir Erling Freyr.

Lise Karstensen, svæðisstjóri Norðurlanda og Eystrasaltsins hjá Nokia Enterprise, segir í tilefni samstarfsins: “1830 PSS-lausnin okkar, sem þegar er komin í notkun víða, mun gera Ljósleiðaranum kleift að mæta vaxandi eftirspurn eftir flutningsgetu og veita viðskiptavinum sínum bestu mögulegu þjónustu þegar þeir eru að undirbúa sín kerfi fyrir tímabil 5G. Við erum spennt fyrir samstarfinu við Ljósleiðarann sem nú er að taka í notkun DWDM-lausnina frá okkur og styðja fyrirtækið við að láta þá framtíðarsýn rætast að veita viðskiptavinum sínum og viðskiptavinum þeirra frábæra upplifun af þjónustunni.“ 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.