Ljósleiðarinn hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA
16. október 2023
16. október 2023
Á árlegri ráðstefnu Félags kvenna í atvinnurekstri eru viðurkenningar veittar til fyrirtækja sem hafa náð árangri í að jafna kynjahlutfall einstaklinga í stjórnunarstöðum fyrirtækja. Ljósleiðarinn er eitt þeirra fyrirtækja sem hlaut viðurkenningu í ár en ráðstefnan var haldin þann 12. október 2023 og bar yfirskriftina „Við töpum á einsleitninni – Jafnrétti er ákvörðun“.
Markvisst hefur verið unnið að því að skapa vinnuumhverfi hjá Ljósleiðaranum sem hvetur til fjölbreytni og jafnréttis í starfshópi fyrirtækisins. Hjá Ljósleiðaranum starfa alls 50 einstaklingar með ólíkan bakgrunn og reynslu en af 5 einstaklingum í stjórendateymi eru nú 2 konur. Mikil áhersla er lögð á möguleika allra einstaklinga til að vaxa í starfi með góðu jafnvægi á milli vinnu og einkalífs.
Markmið viðurkenningar Jafnvægisvogar FKA er að stuðla að auknu kynjajafnrétti í íslensku atvinnulífi. Viðurkenningu hljóta fyrirtæki þar sem hlutfall kynja í framkvæmdastjórn er 40/60 en stefnt er að því að á árinu 2027 hafi því hlutfalli verið náð í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.
„Ég er sérstaklega ánægður með að við höfum fengið þessa viðurkenningu, enda hef ég persónulega góða og sterka reynslu af fjölbreytni í stjórnendahóp og á vinnustað. Það að geta sett saman ólík sjónarmið og komið með mismunandi reynsluheim að borðinu hef ég séð leiða til þess að árangur og menning verður betri fyrir vikið“ sagði Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.