Ljósleiðarinn fagnar nýjum fjarskiptalögum
16. júní 2022
16. júní 2022
Á lokadegi Alþingis þetta vorið, um klukkan níu í gærkvöldi, samþykkti Alþingi ný fjarskiptalög. Lögin, sem fela í sér innleiðingu á sameiginlegum evrópskum lagaramma um starfsemi þessa grundvallarþáttar nútímasamfélags, kom fyrst fram fyrir þremur árum en komst ekki á endastöð fyrr en nú.
Aukin neytendavernd
„Það er afar mikilvægt að stjórnvöld hafa nú rammað inn ýmis mjög mikilvæg atriði fyrir þróun fjarskiptamarkaðarins hér á landi,“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans. „Það eru ekki bara breytingar fram undan,“ segir Erling Freyr, „heldur standa þær yfir og með þessum lögum eru öryggiskröfurnar efldar og neytendur betur varðir en áður.“
Erling Freyr bendir á að enn eigi fjölmörg heimili og fyrirtæki í landinu ekki kost á ljósleiðaratengingu og uppbygging vegna 5G farsímaneta sé hafin. „Þetta eru mikilvæg verkefni og þess vegna kærkomið að nýju lögunum er liðkað fyrir samstarfi um fjárfestingar. Það skiptir verulegu máli ekki síst þegar mikilvægt er að við finnum samlegð til að ljósleiðaravæða þau svæði sem orðið hafa eftir, tengja saman fjölda nýrra farsímasenda og ekki síst að efla fjarskiptaöryggi meðfram þjóðvegum landsins,“ segir Erling Freyr.
Þakkar stjórnvöldum
Erling bendir á að með samþykkt nýju heildaralaganna dragi úr lagalegri óvissu í rekstri fjarskiptafyrirtækja. „Ég vil þakka ráðherrunum tveimur sem unnið hafa að framgangi málsins – þeim Sigurði Inga Jóhannessyni og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur – fyrir þeirra þátt í að koma þessu framfaramáli í höfn og ekki síður þingmönnum sem við höfum átt uppbyggileg samskipti við auk sérfræðinga sem passað hafa upp á að þessi lög yrðu sem best úr garði gerð,“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.