Ljósleiðarinn á Network X
16. október 2024
16. október 2024
Í síðastliðinni viku var ráðstefnan Network X haldin í París. Ljósleiðarinn var að sjálfsögðu á staðnum til að kynna sér það helsta í framþróun á fjarskiptamarkaði.
Network X er mikilvæg ráðstefna fyrir fjarskiptamarkaðinn. Hún sameinar umfjöllun um alla þætti breiðbandstenginga, hvort heldur er yfir fastanet eða farnet.
Það var lykilþema á ráðstefnunni að fjarskiptamarkaðurinn þurfi að horfa með nýjum augum á þarfir viðskiptavina. Áhersla undanfarinna ára hefur verið að eftirspurn sé drifin eftir af auknum hraða í aðgangsnetum. Útbreiðsla á EittGíg ljósleiðarasambanda hefur verið hröð undanfarin ár og fjarskiptafyrirtæki víða um heim farin að selja sambönd sem eru hraðari en EittGig. Framboð slíkra samband er þó enn í dag mun meiri en eftirspurnin, eins og nýlegar tölur Fjarskiptastofu um Íslenska fjarskiptamarkaðinn sýna. Mikil áhersla var lögð á það á ráðstefnunni að framþróun á fjarskiptamarkaði muni snúast í meiri mæli um bætta þjónustu fjarskiptafyrirtækja, sem nái til allra þátta fjarskiptaneta og inn á heimilin. Mikil framþróun er núna að eiga sér stað varðandi gæði upplifunar (e. Quality of Experience) í fjarskiptanetum og WIFI búnað inni á heimilunum, sem gerir fjarskiptafyrirtækjum það kleift að bæta enn frekar upplifun viðskiptavina á fjarskiptaþjónustu.
Mikil umfjöllun var um það hvaða áhrif gervigreind muni hafa á starfsemi fjarskiptafyrirtækja og þróun fjarskiptaneta. Mikilvægt er að fjarskiptafyrirtæki á Íslandi fylgist vel með þeirri þróun þannig að Ísland haldi áfram að vera leiðandi í uppbyggingu og rekstri fjarskiptaneta hérlendis.
Ráðstefnan í ár var með ítarlega umfjöllun um þróun á WIFI tækni. Á næsta ári má vænta að notkun á WIFI 7 staðli fari vaxandi í takt við aukið framboð af notendabúnaði. Varast þarf þó að horfa á WIFI 7 sem eina lausn þar sem búnaður einstaka framleiðenda mun styðja mismunandi þætti staðalsins. Heimild til að nota 6 Ghz tíðnisviðið er einnig mismunandi í heiminum og stuðningur fyrir 6 Ghz í búnaði framleiðenda, sérstaklega frá Asíu takmarkaður. Fjarskiptafyrirtæki hafa hér mikilvægt hlutverk í markaðsetningu á eigin búnaði og að fræða markaðinn um það hvað WIFI 7 getur raunverulega fært viðskpitavininum í bættri upplifun.
Áhugaverð þróun er einnig í þá átt að nýta WIFI routera í auknum mæli til að keyra virðisaukandi þjónustur, s.s. fyrir upplifun leikjaspilara, bætt WIFI inni á heimilum og fyrir öryggisþjónustur. Undanfarin ár hefur átt sér stað mikilvæg vinna í að staðla hvernig fyrirtæki geti þróað lausnir sem geti keyrt á búnaði frá mismunandi framleiðendum. Fyrirtækið Qualcomm stal senunni á ráðstefnunni með nýtt WIFI 7 ‘System on a Chip’ (SoC) vöru sem gerir framleiðendum WIFI búnaðar kleift að bjóða upp á ‘AI at the edge’ stuðning í búnaðinum sem fjarskiptafyrirtæki geta nýtt. Varan styður einnig 10G breiðbandstengingar, bæði yfir fastanet og farnet.
Vænta má hraðri þróun í WIFI endabúnaði á næstu árum sem fjarskiptafyrirtæki á Íslandi þurfa að fylgjast vel með.
Ljósleiðarinn hefur verið leiðandi á íslenskum fjarskiptamarkaði frá stofnun fyrirtækisins í að koma með snjallar tímabærar lausnir sem uppfylla þarfir viðskiptavina ásamt því að horfa til framtíðarþróunar fjarskiptaneta fyrirtækisins. Þátttaka í ráðstefnum á borð við Network X er stór þáttur í því að halda áfram á slíkri vegferð.
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.