Ljósleiðaravaki Veðurstofunnar
17. febrúar 2025
17. febrúar 2025
Í síðustu viku opnaði Veðurstofan nýjan Ljósleiðaravaka í samstarfi við Ljósleiðarann, Háskólann í Reykjavík, Háskólans í Houston og Caltech. Nýi Ljósleiðaravakinn var settur upp til að auka vöktun á jarðhræringum á Reykjanesskaga. Ljósleiðaravakinn byggir á rannsóknarvinnu Háskólans í Caltech, Veðurstofunnar og Háskólans í Reykjavík á árunum 2023-2024.
Í nóvember 2023 settu vísindamenn Caltech og starfsmenn Google sig í samband við Tæknistjóra Ljósleiðarans, Jón Inga Ingimundarson, til að kanna hvort Ljósleiðarinn ætti lausan ljósleiðaraþráð sem færi í gegnum Grindavík. Vísindamenn Caltech voru þá að vinna að rannsóknum með Distributed Acoustic Sensing (DAS) mælitæki sem tengdist ljósleiðarastreng. Rannsóknarverkefni þeirra sneri að því að nota ljósleiðarastreng til að gefa mjög nákvæma mynd af jarðskorpuhreyfingum og jarðskjálftum.
Á þessum tíma hafði Ljósleiðarinn nýlega lagt nýjan ljósleiðarastreng frá Þorlákshöfn, í gegnum Grindavík og um Reykjanestánna til Reykjanesbæjar í framhaldi af útboði Farice á ljósleiðaraþráðum fyrir Iris ljósleiðarasæstrenginn. Því var nægur ljósleiðaraforði til staðar til að styðja við rannsóknarverkefni Caltech.
Sex dögum eftir að Tæknistjóri Ljósleiðarans móttók tölvupóstinn, var verkefnið keyrt áfram með hraði. Uppsetningaraðilar frá Caltech mættu til Íslands 19.nóvember og uppsetning á búnaði hófst daginn eftir.
Tveir ljósleiðarar eru nú mældir og er sérstaklega horft á gögn úr leiðaranum sem liggur sunnan Grindavíkur. Þetta gerir okkur kleift að fylgjast nánar með því sem er að gerast undir yfirborðinu með því að greina breytingar á jarðskorpunni. Þannig er hægt að mæla ein af fyrstu merkjum kvikuhlaups með meiri nákvæmni en áður, flýta viðbrögðunum og auka öryggi.
Helgi Már Isaksen, Forstöðumaður Innviða Ljósleiðarans segir um verkefnið: „Það er frábært að vera þátttakandi í verkefnum þar sem að Innviðir Ljósleiðarans og margra ára frábært starf í styrkingu þeirra geta lyft tækni og öryggi almennings á hærra stig“.
Ljósleiðarinn er virkilega stoltur af þessu samstarfi og því öryggi sem nýja tæknin veitir. Við þökkum Veðurstofunni, Háskóla Reykjavíkur, Caltech og University of Houston kærlega fyrir gott samstarf í þessu mikilvæga verkefni.
Hér er hægt að fylgjast með beinu streymi gagna úr Ljósleiðaravakanum: https://lnkd.in/exrTZ8Qs.
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.