Ljósleiðaradeildin verður áfram Ljósleiðaradeildin

8. ágúst 2024

Ljósleiðarinn og RÍSÍ (Rafíþróttasamband Íslands) hafa framlengt samstarfsamning sinn þess efnis að Ljósleiðarinn verði áfram aðal styrktaraðili CS2 deildarinnar sem mun áfram bera nafnið Ljósleiðaradeildin.

„Við hjá Ljósleiðaranum höfum í gegnum árin stutt vel við rafíþróttir enda teljum við það afar mikilvægt. Greinin er ekki bara vaxandi um allan heim heldur er starfið hérna heima gríðarlega öflugt. Rafíþróttasambandið er með flottar áherslur til að hvetja ungt fólk til að stunda rafíþróttir og við viljum halda áfram að taka þátt í þeirri vegferð,“ segir Einar Þórarinsson framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.

„Það er mikil gróska og Ljósleiðaradeildin verður enn flottari en áður. Rétt eins og bestu spilararnir vita þá skiptir sköpum að vera með góða nettengingu og það er eitthvað sem við þekkjum vel,“ segir Einar jafnframt.

Jökull Jóhannsson framkvæmdastjóri Rafíþróttasambandsins tekur í sama streng og er spenntur fyrir komandi tímabili. „Við ætlum að bjóða upp á nýjungar í vetur eins og að vera með alla leikmenn í vefmyndavél. Þá er hægt að sjá viðbrögð leikmanna í leikjum og svo ætlum við að fjölga viðburðum hjá okkur töluvert. Rafíþróttir eru sífellt að stækka og sem dæmi þá var nú á Ólympíuleikunum í París ákveðið að halda Olympic E-games meðfram næstu leikum sem er afar ánægjulegt.“

Jökull fagnar samstarfinu við Ljósleiðarann og þeim áhuga sem fyrirtækið hefur sýnt vegferðinni í gegnum árin. „Ljósleiðarinn er ekki bara með bestu tengingarnar heldur skilja þau mikilvægi þess að ýta undir íþróttina. Við erum því afar ánægð með að hafa Ljósleiðarann áfram sem einn okkar sterkasta bakhjarl.“
Ljósleiðaradeildin hefst 3. September.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.