Ísland leiðir í nýtingu ljósleiðara í Evrópu

Heiðar Arnarson12. maí 2021

Ísland leiðir í nýtingu ljósleiðara í Evrópu

Ísland heldur toppsæti sínu sem það Evrópuland þar sem hæst hlutfall heimila nýtir sér ljósleiðaratengingu til að uppfylla gagnaflutningsþörf heimilisins. Þetta var kynnt á fundi í hádeginu í dag þar sem Fibre to the Home Council Europe kynnti stöðuna í álfunni miðað við september síðastliðinn. Í skýrslunni sem tekur mið af stöðunni í september 2020 nýttu 70,7% íslenskra heimila sér ljósleiðaratengingu, en nálægt 90% heimila í landinu eru ljósleiðaratengd. Í öðru sæti í nýtingu þessarar öflugu tengingar var Belarús (Hvíta Rússland) með 70,1% nýtingu og í þriðja sæti Spánn með 62,6% nýtingu.

„Þessi árangur Íslands skýrist af metnaðarfullri uppbyggingu ljósleiðara undanfarin ár. Þar hefur verkefni stjórnvalda, undir heitinu Ísland ljóstengt átt góðan þátt, og uppbygging Ljósleiðarans og fleiri á viðskiptalegum forsendum,” segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur.

Í dag eru fleiri en 120.000 heimili á Íslandi tengd ljósleiðara og um 78% þeirra heimila nýta sér tenginguna. Undanfarið ár, þegar við höfum flest unnið heima við, hefur minnt okkur á mikilvægi traustra og öruggra innviða í fjarskiptum. Aukin fjarvinna er komin til að vera og því skipta góð fjarskipti meira máli en nokkru sinni fyrr,“ bætir Erling Freyr við.
Gagnaveitan vinnur nú í samstarfi við Mílu að lagningu ljósleiðara í Reykjanesbæ og áframhaldandi lagningu ljósleiðara til íslenskra heimila.