Ísland leiðir í nýtingu ljósleiðara í Evrópu fjórða árið í röð

21. apríl 2023

Ísland heldur enn og aftur toppsæti sínu sem það Evrópuland þar sem hæst hlutfall heimila nýtir sér ljósleiðaratengingu til að uppfylla gagnaflutningsþörf heimilisins. Þetta var kynnt á árlegum fundi Fibre to the Home Council Europe í dag og miðað er við stöðuna í álfunni í september síðastliðnum. Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, segir þetta einkar eftirsóknarverða stöðu ekki síst í ljósi nýlegra tæknibyltinga.

Fyrsta sæti í Evrópu og það 11. í heiminum öllum

Samkvæmt skýrslunni nýttu 77% íslenskra heimila sér ljósleiðaratengingu, sem setur Ísland í fyrsta sætið í álfunni og það tíunda á heimsvísu. Samkeppnin er hörð og er Spánn aftur í öðru sæti með 74% nýtingu og í þriðja sæti sat Portúgal með 71% nýtingu.

Um 91% heimila á Ísland eru ljósleiðaratengd og eru þau heimili sem ekki hafa aðgang að ljósleiðara í dag eru nánast öll í smærra þéttbýli á landsbyggðinni. Ljósleiðarinn leggur nú landshring fjarskipta sem borið getur þúsund þræði til að efla öryggi fjarskipta í landinu og tryggja landsmönnum  hraðan, öruggan og hnökralausan aðgang að tækifærum framtíðarinnar.

Framsýni eigenda Ljósleiðarans þakkarverð

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, segir þessa stöðu fjarskiptamála hér á landi virkilega eftirsóknarverða, ekki síst nú þegar hver tæknibyltingin rekur aðra sem byggist á hröðum flutningi gagna. „Þessi staða Íslands innan Evrópu og heimsins alls kom ekki af sjálfu sér. Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur sýndu í senn framsýni og frumkvæði þegar þeir tóku forystu um ljósleiðaravæðingu landsins. Þrautseigja og staðföst trú á það sem í gamla daga var kallað upplýsingatæknisamfélagið hefur skilað okkur á þennan stað,“ segir Erling Freyr.

Hann bendir á að það sé bara rétt farið að glitta í tækifærin í snjallvæðingu og nú síðast með hagnýtingu gervigreindar. „Við erum rétt að byrja að átta okkur á tækifærunum og tökunum sem við þurfum að ná á þessari tækni, en kröftug og góð samkeppni fjarskiptafyrirtækja sem byggja þjónustu sína á öflugum innviðum er forsenda þess að sem flest fái notið góðs af þessum stóru tæknistökkum,“ bætir Erling Freyr við.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.