Gagnaveita Reykjavíkur tilnefnd til alþjóðlegra verðlauna

Valur25. október 2017

Gagnaveitu Reykjavíkur er á meðal fjögurra fyrirtækja sem tilnefnd hafa verið til alþjóðlegra verðlauna World Broadband Forum. Tilnefningin er í flokki sem nefnist besti kostur viðskiptavina og er þjónusta sem Gagnaveita Reykjavíkur býður upp á og nefnist „Ein heimsókn“ sérstaklega nefnd sem ástæða útnefningarinnar. „Ein heimsókn“ er samstarfsverkefni Gagnaveitu Reykjavíkur og þeirra sex fjarskiptafyrirtækja sem veita þjónustu um Ljósleiðarann,sem er vörumerki Gagnaveitu Reykjavíkur. Samstarfsverkefnið felur í sér að í aðeins einni heimsókn til viðskiptavina í stað tveggja áður, er gengið frá öllum nauðsynlegum tengingum á heimilum fólks og ljósleiðarasambandið prófað og það afhent tilbúið til notkunar.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur
„Þetta er mikil viðurkenning á vinnu okkar við að efla þjónustuna við viðskiptavini Ljósleiðarans. Það er gott að fá klapp á bakið frá fólki sem starfar í sama geira úti í heimi, fólki sem hefur mikla innsýn í hvað skiptir máli í þessum geira. Verkefnið Ein heimsókn hefur tekist mjög vel og samstarfið við Vodafone, Nova, 365, Símafélagið, Hringiðuna og Hringdu, verið frábært. Sókn Ljósleiðarans á markaði er ekki síst þessu verkefni að þakka og útbreiðsla hans gerir það að verkum að íslensk heimili eru á meðal þeirra best tengdu í heimi, samkvæmt opinberum úttektum.“

Broadband World Forum

Broadband World Forum er einn stærsti vettvangur fjarskiptafyrirtækja fyrir uppbyggingu háhraðaneta. Mörg af stærstu fyrirtækjum heims á þessu sviði eiga aðild að Broadband World Forum. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi árangur og nýsköpun í þessari ört vaxandi atvinnugrein. Sex eru í dómnefnd verðlaunanna og eru það stjórnendur fyrirtækja á sviði fjarskiptaþjónustu víða um heim.

Ein heimsókn

Gagnaveita Reykjavíkur tók höndum saman við fjarskiptafyrirtækin Vodafone, Nova, 365, Símafélagið, Hringiðuna og Hringdu í því skyni að auðvelda nýjum heimilum að tengjast Ljósleiðaranum. Ljósleiðarinn er hraðasta tenging sem heimilum býðst í dag og getur flutt 1 gígabit af efni til viðskiptavinarins og frá honum á sekúndu hverri. Áður fyrr þurfti tvær heimsóknir til að koma heimili í samband við Ljósleiðarann, en með Einni heimsókn sér tæknifulltrúi Gagnaveitu Reykjavíkur um uppsetningu á búnaði fyrir Ljósleiðarann og fyrir alla þjónustuaðila. Tæknifulltrúi tengir ljósleiðarabox Ljósleiðarans, setur upp netbúnað, heimasíma og myndlykil heimilis. Að því loknu eru allar tengingar gæðaprófaðar og niðurstöður vistaðar miðlægt. Ein heimsókn er innifalin og greiða viðskiptavinir ekkert til viðbótar. Þessu pöntunar- og afhendingaferli er stýrt með hugbúnaði sem öll fjarskiptafyrirtækin tengjast og var smíðaður sérstaklega fyrir þessa hraðvirku þjónustu. Tæknifulltrúar fengu líka sérstakt app til að auðvelda uppsetningar og spara pappír. Viðskiptavinir geta svo fylgst með stöðu pöntunar á Pöntunarvakt Ljósleiðarans inn á ljosleidarinn.is.

Ljósleiðarinn er víða

Á síðastliðnum áratug hafa um 85 þúsund heimili verið tengd Ljósleiðaranum. Öll heimili í þéttbýli Reykjavíkur hafa tengst en einnig eru sveitarfélögin Akranes, Hella, Hvolsvöllur, Hveragerði, og Þorlákshöfn orðin tengd.
Á árinu 2018 verður lokið við að tengja öll heimili innan þéttbýlis á höfuðborgarsvæðinu.