Gagnaveita Reykjavíkur heitir nú Ljósleiðarinn

2. nóvember 2021

Eftir að hafa komið fram undir merki Ljósleiðarans síðustu sjö ár hefur nafni Gagnaveitu Reykjavíkur  formlega verið breytt í Ljósleiðarinn. Þetta var ákveðið á hluthafafundi 12. október síðastliðinn. Fyrirtækið rekur víðfeðmt ljósleiðaranet og er enn á fullu í uppbyggingu, einkum á Suðurnesjum þessa dagana. Öll stærstu fjarskipta- og efnisveitufyrirtæki landsins bjóða þjónustu sína um net Ljósleiðarans og hefur fyrirtækið verið lífæð samkeppni á fjarskiptamarkaði síðustu ár.

„Við tókum upp vörumerkið Ljósleiðarinn árið 2014 en um þær mundir vorum við að ljúka við ljósleiðaravæðingu allra heimila í Reykjavík,“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans. „Nú nær okkar grunnnet miklu víðar og við erum enn að stækka það og þétta. Þetta sem upphaflega var heiti á okkar helstu þjónustu hefur smátt og smátt færst yfir á fyrirtækið sjálft og með þessari breytingu erum við að staðfesta þá þróun. Sum hafa kallað okkur Gagnaveituna, önnur GR, enn önnur Gagnaveitu Reykjavíkur en nú viljum við festa Ljósleiðaranafnið í sessi,“ bætir Erling við. Breytingin er eingöngu á heitinu og það starfar áfram á sömu kennitölunni.

Hæsta hlutfall ljósleiðaratenginga í Evrópu

Erling segir mælingar sýna að Ljósleiðarinn sé sterkt vörumerki; vel þekkt meðal almennings og afstaða til þess jákvæð. „Við erum að nýta þennan styrk með breytingunni og skerpa á ásýnd og ímynd fyrirtækisins. Starfsfólk og verktakar Ljósleiðarans, hafa leitt uppbyggingu öflugra ljósleiðaratenginga til heimila, fyrirtækja og stofnana í landinu í einn og hálfan áratug og eflt með því samkeppni á fjarskiptamarkaði, íslenskum almenningi til hagsbóta. Þessi uppbygging hefur jafnframt skilað Íslandi í toppsæti meðal evrópskra landa, þar sem Ísland er með hæst hlutfall heimila sem nýta sér ljósleiðaratengingar.  Hið opna net Ljósleiðarans hefur leitt þá samkeppni sem við höfum séð á fjarskiptamarkaði undanfarin ár,“ segir Erling og heitir því að Ljósleiðarinn taki áfram fullan þátt í að koma öllum landsmönnum í samband við ljósleiðara.

Fleiri en 100.000 heimili eru tengd ljósleiðaraneti Ljósleiðarans en lagnirnar í því eru samtals hátt í 7.000 kílómetrar að lengd. Það samsvarar beinni loftlínu milli Reykjavíkur og Los Angeles. Ljósleiðarinn er alfarið í eigu Orkuveitu Reykjavíkur en eigendur hennar eru Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.