Frá kopar til ljósleiðara: 25 ár frá því að Lína.Net umbylti netsambandi Íslendinga
6. ágúst 2025
6. ágúst 2025
Í dag eru 25 ár síðan tilkynnt var um byltingarkenndan samning á milli Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur og Línu.Nets, sem átti eftir að marka vatnaskil í íslenskum fjarskiptum. Mikilvæg forsenda samningsins var fyrirsjáanleiki í kostnaði – greitt var fast mánaðargjald fyrir gagnaflutning sem var ekki háð notkun eða þjónustutegund. Þessi breyting hljómar sjálfsögð í dag en var gríðarlega umdeild á sínum tíma og hafði miklar afleiðingar fyrir samkeppni á fjarskiptamarkaði.

Mynd úr myndasafni Orkuveitunnar.
Landsíminn, sem þá var ríkjandi afl á markaðnum og í eigu ríkisins, hafði fram að þessu byggt viðskiptamódel sitt á koparlínum og gjaldtöku sem var tengd notkun. Þegar Reykjavíkurborg ákvað að velja ljósleiðaratækni Línu.Net, hófst hörð pólitísk barátta milli ríkisins og borgarinnar. Landsíminn hélt fast í koparkerfið og mótmælti samningnum kröftuglega, sem meðal annars leiddi til kvartana og úrskurða hjá Samkeppnisráði. Þessi barátta komst í fréttirnar og var lýst á sínum tíma sem pólitískum „graut“ milli ríkis og borgar.

Mynd úr myndasafni Orkuveitunnar.
Í dag sjáum við hversu framsýnn þessi samningur reyndist vera. Lína.Net varð síðar að Gagnaveitu Reykjavíkur og svo Ljósleiðaranum sem við þekkjum í dag. Í stað gömlu kopartengingarinnar með 8 Mbps hraða, býður Ljósleiðarinn nú allt að 10 Gbps, sem hefur gjörbreytt landslagi netsins og opnað nýja möguleika fyrir fyrirtæki og heimili.
Breytingarnar hafa ekki bara haft áhrif á tæknina heldur líka breytt því hvernig við lifum, vinnum og lærum. Ljósleiðaratæknin hefur orðið að lykilþætti í stafrænum innviðum samfélagsins, stuðlað að nýsköpun, aukinni atvinnu og bættum lífsgæðum íbúa. Nú, aldarfjórðungi síðar, lítum við fram á veginn með sömu framsýni og einkenndi upphafið árið 2000. Framundan eru spennandi tímar í ljósleiðaratækni og netþjónustu sem mun halda áfram að móta líf okkar allra.
Hér getur þú lesið framhaldið af sögunni.
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.