Fáðu bestu netupplifunina

15. apríl 2020

Nú þegar mörgum vinnustöðum hefur verið lokað og fólk hvatt til þess að vera heima er mikilvægt að hafa netmálin í lagi heimavið. Á þessum tímum eru margir farnir að vinna að heiman og nota fjarfundarbúnað. Enn fleiri nýta sér afþreyingu yfir streymisveitur eða tölvuleiki í netspilun og fjöldi fólks heldur sambandi við vini og ættingja yfir netið.  

Það skiptir miklu máli að hafa netmálin í lagi og höfum við tekið saman nokkur atriði sem er gott að hafa í huga ef eitthvað bregður út af. Allir viðskiptavinir á Ljósleiðara GR fá Eitt gíg netsamband sem veitir næga bandvídd fyrir alla helstu afþreyingu og fjarvinnu.   

NETIÐ EKKI Í LAGI? NOKKUR ATRIÐI TIL AÐ SKOÐA 

Ef netið hjá þér er ekki í lagi eru hér nokkur atriði sem er vert að skoða. Farðu fyrst í gegnum þessi atriði og hafðu svo samband við þitt fjarskiptafélag ef vandamálið er enn til staðar.  

ÞRÁÐLAUST EÐA SNÚRUTENGT?

Flest tæki eru tengd þráðlaust við netbeininn. Það er mjög þægilegt, en ef þú átt kost á þá er betra að vera með tæki tengd með snúru, sérstaklega ef þú þarft ekki að færa þau. Því fleiri tæki sem eru á þráðlausa netinu, því meira álag verður á því. Þar að auki er alltaf mestur hraði og lægstur svartími yfir netkapal. 

FYRSTA GREINING – Á VIÐ UM ÞRÁÐLAUST OG SNÚRUTENGD TÆKI 

Byrjaðu á því að athuga hvort vandamálið sé bundið við ákveðna síðu eða þjónustu.  

  • ​Er það bara Netlix sem höktir eða eru allar síður hægar?
  • Er munur á innlendum og erlendum síðum?
  • Er vandamálið til staðar á öllum tækjum heimilisins eða bara einu?​

​Ef vandamálið er bundið við eina síðu eða þjónustu gæti það verið vegna vandamáls hjá þeim. Til dæmis voru vandamál með Microsoft Teams vegna álags á þjónustuna nýverið.  

Ef þú lendir í vandræðum með aðrar síður skaltu hefja bilanagreiningu. Fyrsta skrefið er alltaf að prófa að endurræsa netbúnaðinn. Það er ástæða fyrir því að gamla góða „Ertu búin/n að slökkva og kveikja á routernum?“ er oft fyrsta spurning sem tækniaðstoð spyr.  

Ef vandamálið er enn til staðar skaltu halda áfram í bilanagreiningu. Ef þú ert að glíma við hraðavandamál þá mælum við með að mæla hraðann á tengingunni á Speedtest.net. Við mælum einnig með því að gera það reglulega til þess að þú vitir hvað er eðlilegur hraði á þínu tæki.  

Á þráðlausu neti er eðlilegt að sjá frá 150 – 450 Mbit og á snúrutengingu geturðu séð allt upp í 980 Mbit (hafa ber í huga að það fer eftir álagi á neti fjarskiptafélags).  

VANDAMÁL – SNÚRUTENGT 

Það eru mun færri hlutir sem geta verið að þegar að tæki er tengt með snúru.  

Það fyrsta sem þarf að skoða er hvort að snúran sé nokkuð klemmd eða slitin. Ef þú átt aðra snúru er um að gera að prófa hana og sjá hvort það leysi vandann. Hafa ber í huga að það eru til mismunandi tegundir af snúrum. Það er lang best að vera með CAT-6 kapal til að tryggja hæstu mögulegu flutningsgæði. Gamlar CAT-5 snúrur styðja bara 100 Mbit, þannig að ef þú átt aðra snúru er um að gera að prófa.  

Annað sem er vert að athuga er hvort að snúran sem fer í netbeininn sé nokkuð skipt (e. splittuð). Í fyrri tíð voru snúrur stundum splittaðar til að nota bara eina lögn fyrir bæði myndlykil og router. Það er ekki lengur gert því að það getur valdið vandræðum, eins og t.d. lágum nethraða.  

Síðasta sem gæti verið að er netkortið í tölvunni þinni. Ef þú hefur tök á skaltu prófa að tengja snúruna í annað tæki og sjá hvort vandamálið sé einnig til staðar þar.

VANDAMÁL – ÞRÁÐLAUST 

Það eru ýmislegt sem getur valdið truflunum á þráðlausu neti. Hér eru nokkur atriði til að skoða.  

Lengd frá netbeini

Prófaðu að færa þig nær netbeininum og sjáðu hvort vandamálið sé enn til staðar. Ef það skánar við að vera nær netbeininum skaltu skoða eftirfarandi:  

  • Staðsetning netbeinis skiptir máli, reyndu að hafa hann miðsvæðis í íbúðinni og ekki ofan í gólfi  
  • Veggir geta truflað þráðlaust net, sérstaklega burðarveggir með málmum innan í 
  • Önnur tæki nálægt router geta truflað, þá sérstaklega örbylgjuofnar eða önnur tæki sem senda frá sér bylgjur 
  • Ísskápar eða önnur stór málmtæki og stór fiskabúr (já, við erum ekki að djóka) geta valdið truflunum á þráðlausu neti.  
  • Þráðlaus tíðni getur haft áhrif og þá sérstaklega 2,4 ghz og 5 ghz

Margir routerar geta sent út þráðlaust net á tveimur mismunandi tíðnisviðum: 2,4 ghz og 5 ghz. Í stuttu máli er munurinn þessi: 

  • ​ 2,4 ghz = Lengri drægni, minni hraði 
  • 5 ghz = Styttri drægni, meiri hraði

 Það er best að vera á 5 ghz ef hægt er, þar sem að þú færð mestan hraða. En ef þú ert langt frá routernum gæti verið betra að vera á 2,4. Margir routerar senda merkin út á mismunandi þráðlausum netum, þannig gæti netið þitt verið ÞráðlaustNet og ÞráðlaustNet_5G. Nýrri týpur af routerum senda merkin út á einu þráðlausu neti og stjórnast þá af tækniu hvort tíðnisviðið það notar. 

Tækninni hefur miðað mikið áfram á undanförnum árum, þannig að ef þú ert með gamlan router þá gæti verið kominn tími til að uppfæra. Það er til mikið af mismunandi búnaði. Ef þú ert í lítilli íbúð gæti verið nóg að fá sér þráðlausan punkt eins og t.d. Unify sem varpar merkinu áfram.  

Ef þú vilt fá bestu upplifunina þá mælum við með að setja upp mesh router kerfi. Það virkar þannig að það eru nokkrir þráðlausir sendar sem eru tengdir á mismunandi punktum á heimilinu sem virka allir saman eins og eitt stórt þráðlaust net. Það eru til nokkrar tegundir eins og til dæmis Google Wifi, Netgear Orbi, Eero og Unify. Þeir fást hjá fjarskiptafélögunum og helstu tölvuverslunum.

OK, ÉG FÓR Í GEGNUM ÞETTA ALLT EN NETIÐ ER ENNÞÁ LEIÐINLEGT!  

Ef netið er ennþá með vesen skaltu hafa samband við þitt fjarskiptafélag og fá þá til að skoða málið. Þá gæti eitthvað meira verið að sem tæknifulltrúar þeirra geta aðstoðað með. 

KANNT ÞÚ EINHVER GÓÐ RÁÐ SEM VIÐ MINNTUMST EKKI Á HÉR?

LÁTTU OKKUR VITA Á FACEBOOK SÍÐU LJÓSLEIÐARANS 

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.