Evrópusambandið verðlaunar Ljósleiðarann
21. nóvember 2023
21. nóvember 2023
Við hátíðlega athöfn í Brussel tók Axel Paul Gunnarsson hjá Ljósleiðaranum við verðlaunum Evrópuráðsins sem bera heitið European Broadband Awards fyrir árið 2023. Verðlaunin fékk Ljósleiðarinn fyrir verkefnið „Kapphlaupið gegn Fagradalsfjalli“ sem unnið var þegar eldgos hófst við Fagradalsfjall vorið 2021.
Tilnefningar til verðlaunanna fá þau verkefni sem þykja hafa skarað fram úr til að efla nettenginu fyrir íbúa í Evrópu.
Verkefni Ljósleiðarans var samstarfsverkefni fjölda aðila sem koma að fjarskiptum á Íslandi og gekk út á að leggja nýjan ljósleiðarastreng á Reykjanesskaga í kapphlaupi við hraunstrauminn. Þá lá fyrir að eldri lagnir voru í hættu við að rofna ef hraunflæði færi þar yfir en með skjótum viðbrögðum og frábærri samvinnu allra sem komu að verkefninu tókst að tryggja mikilvæga innviði fyrir fjarskiptasamband á Íslandi og tengingar við útlönd. Auk þess varð til verðmæt þekking á áhrifum slíkra náttúruógna sem hefur nýst fyrirtækinu á síðustu dögum.
Axel Paul tók til máls þegar ljóst var að verkefni Ljósleiðarans hefði borið sigur úr býtum og voru Grindvíkingar honum ofarlega í huga.
„Við erum öll að hugsa til íbúa Grindavíkur og þó myndbandið okkar hafi verið fallegt og verkefnið gengið vel þá þurfum við að gera okkur grein fyrir því að þetta er yfirvofandi ástand. Hættan er raunveruleg og hugur okkar allra er hjá íbúum Grindavíkur,“ sagði Axel Paul.
Nánar um verðlaunaafhendinguna
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.