Ekki grafa ef þú ert í vafa!
30. apríl 2025
30. apríl 2025
Nú er kominn sá tími árs þegar framkvæmdir fara á fullt í görðum landsmanna. Áður en hafist er handa við framkvæmdir er mjög mikilvægt að kynna sér vel hvar neðanjarðarrör fyrir nauðsynlegar lagnir að húsinu eru staðsett. Ef grafið er án þekkingar á því hvar lagnir liggja á lóðinni getur það leitt til kostnaðarsamra viðgerða og óþæginda sem auðvelt er að koma í veg fyrir.
Ljósleiðararörin okkar eru appelsínugul og bleik. Hönnunarfyrirmæli í dag gera ráð fyrir að þau séu almennt á 15 – 40cm dýpi, en ekki er hægt að ganga að því sem vísu að lagnir Ljósleiðarans séu á tilteknu dýpi.
Besta ferlið fyrir þann sem ætlar að ráðast í framkvæmdir á sinni lóð er að óska eftir lagnateikningum af sinni lóð en á virkum dögum er slíkum beiðnum að jafnaði svarað samdægurs. Með teikningunum er hægt að staðsetja ljósleiðaralögn sem liggur um lóð með u.þ.b. eins metra návæmni eða 50cm í hvora átt út frá lögn, þetta er þó ekki algilt. Vinsamlegast athugið að aðrar lagnir en Ljósleiðaralagnir gætu einnig verið á svæðinu, en Ljósleiðarinn getur aðeins gefið upplýsingar um staðsetningu eigin lagna.
Jafnvel þótt þú hafir upplýsingar um hvar neðanjarðarrör eru staðsett, þá er mikilvægt að fara varlega þegar grafið er í garðinum. Best er að grafa varlega með handafli ofan af lögn á einum stað og staðfesta með því hvernig lögnin liggur og vera þá með vitneskju um dýpt og réttleika lagnaleiðar. Út frá því er hægt að ákvarða hvernig er best að bera sig að í kringum lögnina áður en framkvæmdir hefjast.
Ef mikill vafi leikur á því hvernig skal bera sig að er hægt að hafa samband við eftirlit@ljosleidarinn.is og óska eftir því að fá útsetta hnitpunkta lagnarinnar og ráðleggingar í kringum framkvæmd. Athugið að nokkrir dagar geta liðið frá beiðni þar til að tími gefst fyrir eftirlitsmann til að komast til þín. Biðtími getur verið milli þrír og sjö dagar frá beiðni en að sjálfsögðu er reynt eftir fremsta megni að koma sem fyrst.
Hér getur þú sótt um lagnateikningar. Þú getur einnig haft samband á ljosleidarinn@ljosleidarinn.is, í síma 5167777 eða á Netspjallinu okkar alla virka daga kl. 08:00-17:00 til að fá ráðleggingar áður en þú byrjar að grafa.
Ef grafið er í ljósleiðaralögn svo slit verður á lögninni er mjög mikilvægt að tilkynna það strax. Fylltu út þetta form til að tilkynna slit.
Við spurningar, getur þú alltaf haft samband við okkur á Netspjallinu eða í síma 516-7777, virka daga frá 08:00 – 17:00 eða sent tölvupóst á ljosleidarinn@ljosleidarinn.is.
Utan opnunartíma þjónustuversins okkar getur þú hringt í 516-7777.
Ljósleiðarinn liggur inni í röri sem grafið er niður í jörð. Oft liggja fleiri en ein Ljósleiðaralögn saman í einum og sama lagnaskurðinum, s.s. mögulega bæði fyrir þig og nágranna. Ef ljósleiðarinn inni í rörinu rofnar/slitnar þá er nauðsynlegt að lagfæra rörið sem gamli ljósleiðarinn lá í. Þar á eftir þarf að skipta um ljósleiðarann í heild sinni ásamt því að bræðisjóða hann bæði inni í inntaki húss og næsta tengipunkti úti í götu. Sú vegalengd sem blása þarf nýjum ljósleiðara frá húsi og út að næsta tengipunkti ræðst alfarið af tengipunkti sem næstur er fyrir viðkomandi tengingu. Almennt eru þetta u.þ.b. 100-500 metrar að meðaltali, en getur þó farið alveg upp í 2,5 – 3 km fyrir utan höfuðborgarsvæðis.
Eins og gefur að skilja geta þetta verið mjög dýrar lagfæringar og jafnframt tímafrekar og ekki víst að hægt sé að ráðast í lagfæringu um leið og slit verður. Því gæti viðskiptavinur þurft að þola rof á heimilistengingu sinni fram að næsta virka degi eða jafnvel lengur ef veðurfar hamlar framkvæmdum.
Við vekjum athygli á því að tjón á fjarskiptalögnum er alfarið á ábyrgð tjónvalds út frá fjarskiptalögum.
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.