Einar tók við Gullmerki Rafíþróttasambands Íslands
14. janúar 2026
14. janúar 2026
Ljósleiðaradeildin 2026 hóf göngu sína í gær eftir langt og gott jólafrí og fyrsta leik deildarinnar áttu Saga og Dusty. Í fyrstu útsendingu ársins mætti Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans, til að taka á móti viðurkenningu frá Rafíþróttasambandi Íslands. RÍSÍ veitti Einari Gullmerki RÍSÍ fyrir óeigingjarnt framlag, elju og uppbyggingu í þágu rafíþrótta á Íslandi. Sambandið vildi þannig heiðra Einar fyrir að hafa eflt rafíþróttasamfélagið og skapað jákvæða fyrirmynd og stuðlað að vexti rafíþrótta.
Ljósleiðarinn hefur verið mjög stoltur aðalstyrktaraðili Ljósleiðaradeildarinnar síðustu ár, þar sem keppt er í Counter Strike 2. Sem aðalstyrktaraðili hefur Ljósleiðarinn spilað stórt hlutverk í uppbyggingu og framgangi rafíþrótta á Íslandi, en rafíþróttir eru orðnar hluti af daglegu lífi margra íslenskra ungmenna og bjóða upp á fjölbreytt tækifæri til þroska og árangurs.
Rafíþróttir hafa á seinustu árum vaxið gríðarlega á Íslandi og eru nú orðnar mikilvægur hluti af íþróttamenningu landsins. Til vitnis um þennan vöxt má meðal annars nefna Alfreð Leó Svansson, sem er einn fremsti rafíþróttamaður landsins, og var á síðasta ári valinn Íþróttamaður ársins hjá Þór Akureyri. Einnig er gaman að rifja upp Skjálfta sem haldinn var á síðasta ári eftir um 20 ára hlé. Þar sá Ljósleiðarinn um að beintengja alla keppendur við gæðasamband og sjá til þess að öll gætu keppt án þess að hafa áhyggjur af netsambandinu. Á meðal gesta á Skjálfta voru Willum Þór Þórsson, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) sem veitti Birni Gíslasyni, borgarfulltrúa og formanni Fylkis, Hvatningarverðlaun Rafíþróttarsambands Íslands, sem er sérstök viðurkenning fyrir óeigingjarnt og ómetanlegt framlag hans til uppbyggingar rafíþrótta á Íslandi.
Ljósleiðarinn hlakkar til að styðja við áframhaldandi framgang greinarinnar og sjá enn fleiri íslensk ungmenni blómstra í þessari ört vaxandi íþróttagrein.
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.