Dusty sigurvegari í úrslitum Ljósleiðaradeildarinnar
19. nóvember 2024
19. nóvember 2024
Um helgina fór fram úrslitakvöldið í Ljósleiðaradeildinni í Counter Strike þar sem liðin Þór og Dusty mættust.
Arena fylltist af fólki snemma um daginn og Ljósleiðarinn og Red Bull buðu upp á ýmis konar skemmtun.
Í Ljósleiðaraherberginu var keppt um Ljósleiðaraskyttuna. Þar tók Counter Strike goðsögnin Arnar „Vargur“ Ingvarsson á móti hverjum þeim sem á hann skoraði. Þau voru mörg sem tóku slaginn við Varginn og eftir margra klukkustunda spil var aðeins ein sem náði að sigra hann, Árveig Lilja „Nutella“ Bjarnadóttir. Árveig er fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í Counter Strike og vann vegleg verðlaun, bleik Logitech Gaming heyrnartól frá Ljósleiðaranum.
Ljósleiðarinn bauð einnig fyrstu gestunum upp á gjafapoka fulla af góðgæti þar sem bleiki liturinn var allsráðandi.
Fyrsti leikur Dusty og Þórs var spilaður kl. 18 og var mikil spenna í salnum. Að lokum var það Dusty sem stóð uppi sem sigurvegari eftir fjórar spennandi viðureignir.
Samfélagið í kringum Counter Strike er það stærsta sinnar tegundar á Íslandi en á þessu tímabili tóku 62 lið þátt í sex deildum. „Það er sannarlega ánægjulegt fyrir Ljósleiðarann að fá að styrkja rafíþróttir á Íslandi í gegnum samstarf sitt við Rafíþróttasamband Íslands. Með því að styðja við rafíþróttir leggur Ljósleiðarinn sitt af mörkum til að efla samfélagið á meðal ungs fólks. Vonandi mun þessi stuðningur efla enn fremur vöxt rafíþrótta hér á landi og styrkja stöðu íslensks rafíþróttafólks, bæði heima fyrir og á alþjóðlegum vettvangi, og stuðla að frekari uppbyggingu samfélagsins“ segir Einar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.
Við óskum Dusty hjartanlega til hamingju með sigurinn. Við þökkum einnig RÍSÍ fyrir frábært samstarf og utanumhald utan um kvöldið. Það var virkilega gaman að fá að fylgjast með liðunum spila og sjá hversu mörg mættu til að hvetja þau áfram.
Hér má lesa meira um úrslitakvöldið.
Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.