82% íslenskra heimila tengd ljósleiðara

15. apríl 2020

ÍSLAND Í ÖÐRU SÆTI Í EVRÓPU YFIR VIRKAR LJÓSLEIÐARATENGINGAR – 100.000 HEIMILI TENGD LJÓSLEIÐARANUM

Gagnaveita Reykjavíkur (GR) lauk nýverið við að tengja hundraðþúsundasta heimilið við Ljósleiðarann og var það í Árborg. Nú eru 82% íslenskra heimila tengd ljósleiðara og samkvæmt skýrslu IDATE DigiWorld er Ísland nú í öðru sæti í Evrópu hvað varðar hlutfall virkra ljósleiðaratenginga á heimilum. Lettland er í fyrsta sæti.

82% heimila tengd ljósleiðara á Íslandi

Minnst 90% tengd 2023

Á næstu misserum verða heimili tengd Ljósleiðara GR orðin 120.000. Auk nýbygginga á starfssvæði GR vinnur fyrirtækið nú að lagningu Ljósleiðarans í eldra húsnæði í Reykjanesbæ, Árborg og í Vogum á Vatnsleysuströnd auk nýbygginga þar. Sé eingöngu miðað við áætlanir GR um uppbyggingu ljósleiðara verða um 90% heimila tengd árið 2023. Gagnaveita Reykjavíkur, sem á og rekur Ljósleiðarann, vinnur þannig ötullega að því markmiði stjórnvalda að Ísland verði að fullu ljóstengt.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri GR

„Það er gaman að sjá hvað við erum mörg sem erum að vinna að því um allt land að ljúka ljóstengingu Íslands. Ísland er nú í öðru sæti hvað varðar hlutfall ljósleiðaratenginga í notkun í allri Evrópu. Þessi öfundsverða staða er Íslandi styrkur í samkeppni þjóða og skiptir lykilmáli fyrir þróunarmöguleika atvinnulífs og byggðar í framtíðinni.“

Eitt gíg í boði

Öllum heimilum og fyrirtækjum sem tengd eru Ljósleiðaranum stendur til boða Eitt gíg gæðasamband, sem gefur kost á 1.000 megabitum bæði til og frá. Það er öflugasta nettenging sem býðst á almennum markaði hér á landi og þó víðar væri leitað. Flest stærstu fjarskipta- og afþreyingarfyrirtæki landsins bjóða þjónustu sína um Ljósleiðarann og viðskiptavinum stendur til boða val á milli fjölmargra þjónustuleiða Vodafone, Nova, Hringdu og Hringiðunnar.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.