Í gær tók Ljósleiðarinn, ásamt Orkuveitunni og öðrum dótturfélögum hennar, á móti stórskemmtilegum hópi af strákum og stálpum úr 9. bekkjum landsins í Háskóla Reykjavíkur á viðburðinum Strákar og stálp í háskóla. Þetta var í fyrsta skiptið sem þessi viðburður er haldinn, og er byggður á Stelpur, stálp og tækni, sem HR hefur staðið fyrir frá árinu 2014 og Orkuveitan og dótturfélög hafa tekið þátt í með frábærum árangri. Markmiðið með viðburðinum er að bregðast við þeirri þróun að færri strákar sæki sér menntun á háskólastigi.
Á viðburðinum fá strákar og stálp meðal annars tækifæri til að kynnast háskólaumhverfinu, hitta fyrirmyndir úr háskóla og atvinnulífinu og sjá fjölbreyttar leiðir í námi og starfi. Við fengum því tækifæri til að veita strákum og stálpum innblástur úr atvinnulífinu og leyfa þeim að sjá möguleika sína í framtíðarstörfum þegar við kynntum starfsemi okkar fyrir þessu unga og áhugasama fólki.
Dagurinn var fullur af fræðslu, spjalli og innblæstri frá háskólakennurum, nemendum og atvinnulífinu. Við þökkum þeim fjölmörgu strákum og stálpum sem komu við á básnum okkar og hlökkum til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér hjá þessum flottu krökkum!




Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.