25 ár frá fyrstu skóflustungunni að ljósleiðaragrunnneti Ljósleiðarans

7. ágúst 2024

Í dag, 7.ágúst 2024, eru 25 ár frá fyrstu skóflustungunni að ljósleiðaragrunnneti Ljósleiðarans.

Forsagan má segja að hafi verið sú framtíðarsýn margra að eftirspurn eftir gagnaflutningi myndi stóraukast samhliða aukinni notkun á Internetinu. Internetið var á þessum tíma tiltölulega nýtt fyrirbæri fyrir almenning, en segja má að almenn notkun þess hafi byrjað að myndast á árunum 1994-1998. Nýsköpunarfyrirtæki í hugbúnaðargeiranum og Internetnotendur höfðu lengi þrýst á stjórnvöld, sem eigendur ríkisfyrirtækisins Landsími Íslands, að tryggja hraðari og hagkvæmari gagnaflutninga á Íslandi.

Upphafsaðilar lagningu ljósleiðaragrunnnets Ljósleiðarans voru Orkuveita Reykjavíkur (í gegnum nýstofnað dótturfélag sitt Línu.Net) og fjarskiptafyrirtækið Íslandssími (í dag Vodafone á Íslandi).

Árið 1998 vann Þorsteinn Sigurjónsson, verkfræðingur hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, skýrslu sem hét „Framsókn Rafmagnsveitu Reykjavíkur á fjarskiptasviðinu“ þar sem fjallað var um tækifæri á þessu sviði fyrir Rafmagnsveituna og hver framþróunin gæti orðið. Í framhaldi af þeirri skýrslu lét Rafmagnsveitan verkfræðistofuna RT vinna kerfisgreiningu og kostnaðaráætlun að nýju gagnaflutningskerfi Rafmagnsveitunnar.

Íslandssími var stofnaður sama ár af hugbúnaðarfyrirtækinu OZ og þremur starfsmönnum OZ og Íslandssíma. OZ hafði verið í tækniþróunarsamstarfi við Ericsson, sem snerist fyrst og fremst um nýjar samskiptalausnir yfir Internetið. Stofnendur Íslandssíma vildu með stofnun Íslandssíma skapa grundvöll til að nýta Ísland sem tilraunasvæði undir nýja tækni í síma- og fjarskiptaþjónustu.

Þann 9. júní 1999 tilkynnti Orkuveita Reykjavíkur um fyrirætlanir sínar um lagningu á ljósleiðaragrunnneti á höfuðborgarsvæðinu. Síðar sama mánuð skrifuðu Íslandssími og Lína.Net undir samstarfssamning um lagningu á ljósleiðaragrunnnetinu á milli yfir 300 spennustöðva Orkuveitunnar. Fyrsta skóflustungan að grunnnetinu var 7. ágúst 1999 við Suðurlandsbraut.

Lagning ljósleiðaragrunnnetsins var áfangaskipt og náði yfir árin 1999-2001 á stór-höfuðborgarsvæðinu. Árin 2000-2001 var jafnframt lagður ljósleiðarastrengur frá Reykjavík til Vestmannaeyja í samstarfi við Íslandssíma. Á þessum tíma var einungis einn ljósleiðarasæstrengur sem tengdi Ísland við umheiminn, Cantat-3, sem kom til lands í Vestmannaeyjum.

Ljósleiðaragrunnnet þetta myndar í dag, 25 árum síðar, undirstöðu undir vöruframboð Ljósleiðarans bæði til heimila og fyrirtækja. Með tilkomu þessa ljósleiðaragrunnnets varð til valkostur fyrir fjarskiptafyrirtæki á smásölumarkaði til að byggja starfsemi sína á, og hafa fjölmörg ný fjarskiptafyrirtæki litið ljós síðustu áratugina. Ísland er í dag í fremstu röð í Evrópu hvað varðar nýtingu á ljósleiðaratækni og á mælingum á gæði Internet sambanda. Þessa stöðu má meðal annars þakka þeim frumkvöðlum sem sáu tækifærin í nýrri tækni fyrir 25 árum síðan.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.