Stefna

Hlutverk og stefna

Gagnaveita Reykjavíkur (GR) sér um lagningu og rekstur Ljósleiðarans. Ljósleiðarinn er gæðasamband fyrir heimili og fyrirtæki sem býður eina öfluga tengingu fyrir Internet, sjónvarp og síma. Ljósleiðarakerfi GR er opið net sem öllum fjarskiptafyrirtækjum býðst að selja þjónustu sína á og stuðlar þannig að aukinni samkeppni í fjarskiptum og skýtur stoðum undir aukna net- og snjallvæðingu samfélagsins. Gagnaveita Reykjavíkur ætlar að ljósleiðaravæða íslensk heimili og fyrirtæki á þjónustusvæði sínu. Viðskiptavinir eru bæði fyrirtæki og einstaklingar sem starfa og búa á þjónustusvæði sem nær nú frá Bifröst til Vestmannaeyja.

Hlutverk Gagnaveitu Reykjavíkur er að auka lífsgæði og upplifun einstaklinga og fyrirtækja sem og að vera í forystu í fjarskiptum. Hlutverk fyrirtækisins er jafnframt að styðja við atvinnulífið með opnu háhraðaneti, að auka samkeppni í fjarskiptamálum og færa þannig Ísland í hóp hæfustu þjóða.  Fyrirtækið ætlar að styðja við snjallvæðingu samfélaga með þekkingu og sterkum grunnstoðum.

Stefna okkar í öryggi, heilbrigði og vinnuumhverfi

Gagnaveita Reykjavíkur leitast við vera til fyrirmyndar í öryggis-, heilbrigðis- og vinnuumhverfismálum.

Fyrirtækið einsetur sér að  vernda og bæta líf þeirra sem starfa fyrir það með því að skapa slysalausan vinnustað þar sem enginn starfsmaður, verktaki eða almenningur bíður heilsutjón vegna starfseminnar.

Þeir sem starfa fyrir Gagnaveitu Reykjavíkur eru ábyrgir fyrir eigin öryggi, eru talsmenn aukins öryggis samstarfsmanna sinna og leitast við að koma auga á, meta og stjórna áhættum í vinnuumhverfinu.

Ekkert verk er svo mikilvægt að fórna megi öryggi fólks við framkvæmd þess.

Öryggis-, heilsu- og vinnuumhverfismál eru óaðskiljanlegur hluti af allri starfsemi fyrirtækisins.