1. ALMENNT
- Skilmálar þessir gilda fyrir notkun fyrirtækja á ljósleiðarasamböndum í Ljósleiðaraneti Gagnaveitu Reykjavíkur (GR).
- Ljósleiðarasamband er óvirkjuð gagnaflutningsleið milli tveggja tengistaða (e. dark fiber).
- GR áskilur sér rétt til að gera breytingar á skilmálum þessum og eru slíkar breytingar kynntar á vefsíðunni ljosleidarinn.is með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara.
- Viðskiptavinur er rétthafi ljósleiðarasambanda og ber ábyrgð á notkun þeirra skv. kafla 2.
- Viðskiptavinur ber fulla ábyrgð á greiðslum til GR vegna notkunar á ljósleiðarasamböndum skv. kafla 3.
- GR ábyrgist ekki tjón sem rekja má til sambandsleysis, rofs á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptakerfis GR eða þjónustuaðila, hvort sem slíkt má rekja til ljósleiðarabilana, bilana í netbúnaði eða annarra ástæðna.
2. NOTKUN
- Óheimilt er að tengja búnað við ljósleiðaranet GR nema hann uppfylli kröfur Póst- og fjarskiptastofnunar.
- Óheimilt er að tengja búnað sem framkallar bylgjulengdarfléttun (e. Wavelength –Division – Multiplexing) við ljósleiðaranet GR nema annað sé tiltekið í samningi og gildir þá að:
- Val á búnaði til bylgjulengdarfléttunar er á ábyrgð viðskiptavinar.
- GR er heimilt að kanna fjölda bylgja og búnað sem er í notkun.
- Búnaður viðskiptavinar þarf að taka mið af útreiknaðri deyfingu ljósleiðarasambands á tiltekinni bylgjulengd sem afhent er ásamt mælingu við afhendingu sambands.
- Verði bilun á ljósleiðarasambandi skal hún tilkynnt til GR í þjónustunúmer 516 7777. Tilkynni viðskiptavinur um bilun í ljósleiðarasambandi og í ljós kemur að ekki er um bilun í ljósleiðarasamböndum eða búnaði GR að ræða innheimtir GR kostnað vegna útkalls og tæknivinnu skv. gildandi gjaldskrá GR á hverjum tíma.
3. GREIÐSLUR
- Gjalddagi mánaðargjalds er fimmti hvers mánaðar. Gjalddagi og eindagi reiknings er sá sami.
- Viðskiptavinur skal greiða fyrir útskrift greiðsluseðla, svokallað seðilgjald, skv. gjaldskrá GR nema hann óski þess að reikningur sé skuldfærður eftir rafrænum greiðsluleiðum og er þá enginn greiðsluseðill sendur út.
- Sé reikningur greiddur eftir gjalddaga greiðir viðskiptavinur dráttarvexti frá gjalddaga til greiðsludags skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 auk alls kostnaðar sem af innheimtu kröfunnar hlýst.
- Skráður rétthafi er ábyrgur fyrir greiðslu mánaðargjalds, lagnagjalds og annarra gjalda sem tilgreind eru í samningi.
- Séu greiðslur í vanskilum 45 dögum eftir gjalddaga er heimilt að loka þeim ljósleiðarasamböndum sem vanskil ná til.
- Ef ætla má vegna framkominna atvika að kaupandi geti ekki greitt skuldir sínar á gjalddaga þeirra, er heimilt að loka ljósleiðarasambandinu fyrirvaralaust, nema kaupandi setji fram fullnægjandi tryggingu fyrir skuldinni og væntanlegri notkun á yfirstandandi afnotatímabili.
- Athugasemdir við reikninga skulu berast eins fljótt og auðið er á netfangið: ljosleidarinn@ljosleidarinn.is eða í síma 516-7777.
- Öll verð taka breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs þann 1. janúar og 1. júlí ár hvert, nema annað sé tiltekið í samningi.
- Uppsögn skal vera skrifleg og gerð með mánaðar fyrirvara sem telst frá næstu mánaðamótum eftir að uppsögn berst nema annað sé tiltekið í samningi.
4. ÖNNUR ÁKVÆÐI
- Um fjarskiptaþjónustu gilda lög um fjarskipti nr. 81/2003 ásamt síðari breytingum. Brot á lögum og reglum Póst- og fjarskiptastofnunar getur valdið tafarlausri lokun á þjónustu.