Vorboðarnir

Valur9. maí 2018

Vorið er augljóslega komið. Lóan farin að syngja í túnum, snjókoman orðin fátíð og Ísland fallið út úr Júróvisjón. Vandvirkir verktakar á vegum Ljósleiðarans eru líka farnir að leggja rör í hús, blása í þau ljósleiðaraþráðum, festa upp tengibox á heimilum og klára svo tengingar í einni heimsókn. Í þessum pistli er farið yfir helstu framkvæmdasvæðin okkar næstu mánuðina.

Aldrei fleiri heimili tengd

Árið 2017 var metár í tengingu nýrra heimila við  Ljósleiðarann og við berjum sama taktinn nú í ár. Þau vatnaskil verða að við klárum tengingu allra heimila í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavík var kláruð 2015 og nú í júní verður næststærsta sveitarfélag landsins, Kópavogur, fulltengt þegar við klárum miðbæinn. Í Garðabæ verðum við að vinna frameftir öllu ári, á Arnarnesi nú í vor og frameftir sumri og á Álftanesi á síðari hluta ársins. Í Hafnarfirði klárum við fyrst Vellina um mitt sumar áður en við förum í Setbergslandið. Í Mosfellsbæ verðum við um svipað leiti á ferðinni og klárum tengingar í þéttbýlinu þar fyrir áramót eins og í hinum. Þó nokkur heimili í Borgarnesi eru farin að njóta Ljósleiðarans. Þeim mun fjölga á árinu, einkum í kringum miðjan bæ, og svo verðum við að tengja á Hvanneyri.

Mikil eftirspurn

Nú á dögunum bættust Árborg og Reykjanesbær við þau sveitarfélög sem vilja endilega fá Ljósleiðarann til íbúa í bæjunum. Þar erum við undirbúa framkvæmdir, hanna kerfin og finna vinnufúsa verktaka. Ekki er útilokað að hægt verði að tengja einhver heimili á Ásbrú við Ljósleiðarann strax á þessu ári. Við lofum því samt ekki alveg strax. Í þessum sveitarfélögum geta íbúar haft áhrif á framkvæmdaröð með því að lýsa yfir áhuga á að nýta sér Ljósleiðarann þegar hann verður kominn í gagnið.