Útbreiðsla Ljósleiðarans aldrei örari en 2017

Valur18. janúar 2018

Heimilum tengdum Ljósleiðara Gagnaveitu Reykjavíkur fjölgaði um 10.556 á árinu 2017 og hefur fjölgunin aldrei verið örari. Um 87 þúsund heimili í tólf sveitarfélögum eru nú tengd Ljósleiðaranum og svarar það til þess að tvö af hverjum þremur heimilum í landinu eru tengd.

Bylting í gagnatengingum heimila

Það verkefni Gagnaveitu Reykjavíkur að tengja ljósleiðara alla leið inn á heimili fólks hófst fyrir rúmum áratug. Lokið var við að tengja öll heimili í þéttbýli Reykjavíkur árið 2015 og er verkefnið langt komið eða því lokið í stærstu nágrannasveitarfélögum auk nokkurra sveitarfélaga á Suðurlandi.

Lokið verður við tengingar í þéttbýli Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Mosfellsbæjar á yfirstandandi ári og verkefni Ljósleiðarans í Borgarbyggð lýkur fyrir árslok 2018.

Hröð uppbygging á hröðum tengingum

Hraði uppbyggingar Ljósleiðarans 2017 var verulegur miðað við fyrri ár. Tengd voru 10.556 heimili og er það þriðjungi fleiri heimili en á því ári sem næst kemur, árinu 2016. Þá voru þau 7.928. Á sama tíma hefur hraði nettenginga um Ljósleiðarann vaxið og á árinu 2017 buðu nokkur fjarskiptafélög sem selja þjónustu um Ljósleiðarann 1 Gígabits tengingu. Sá hraði er með því mesta sem gerist í heiminum.

Íslendingar framarlega í fjarskiptamálum

Alþjóðafjarskiptasambandið gerir árlega skýrslu um hversu þróaðar þjóðir heims eru á fjarskiptasviðinu. Reiknaður er út svokallaður IDI (ICT Development Index) sem má leggja út sem þróunarstuðul í upplýsingatækni. Að baki honum liggja ýmsar tölur sem sambandið telur skipta máli í þessu samhengi, þar á meðal bandvídd tenginga fólks við hið alþjóðlega internet.

Staða fjarskiptamála ræður miklu um samkeppnishæfni þjóða og það stendur engin þjóð í stað.

Til marks um þetta má nefna að á stærstu breiðbandsráðstefnu heims, sem fram fór í Berlín í október síðastliðnum, unnu hvorttveggja Gagnaveita Reykjavíkur og Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdastjóri hennar til verðlauna.

Ljósleiðaravæðingu lokið 2020

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er sótt fram í fjarskiptamálum og er ljósleiðari þar í brennidepli. Þar er sett fram það metnaðarfulla markmið að ljósleiðaravæðingu landsins verði lokið árið 2020 og að Ísland verði áfram í fremstu röð þegar kemur að fjarskipta- og upplýsingatækni. Áframhaldandi uppbygging Ljósleiðara Gagnaveitu Reykjavíkur styður við það markmið.