Tíu þúsund heimili í Hafnarfirði tengjast Ljósleiðaranum

11. nóvember 2015

Bæjarstjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar og framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um ljósleiðaratengingu allra heimila í bænum.
Nú þegar nær Ljósleiðarinn til um 2.100 heimila í Hafnarfirði. Í kjölfar viljayfirlýsingarinnar munu 500 heimili til viðbótar verða tengd fyrir árslok og alls verða um tíu þúsund heimili í Hafnarfirði tengd ljósleiðaranum fyrir árslok 2018. Það eru öll heimili innan þéttbýlis í bænum.

Aukið val íbúa

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, fagnar yfirlýsingunni því mikilvægt sé að Hafnfirðingum standi til boða fjölbreyttir kostir í fjarskiptum. „Þróun í netnotkun og öðrum fjarskiptum á heimilum fólks er þannig að það skiptir fólk verulegu máli að fjölbreyttir valkostir séu til staðar. Það er þess vegna fengur fyrir íbúa að fá Ljósleiðarann tengdan við öll heimili í bænum. Auðvitað skiptir útbreiðsla hans líka máli fyrir fyrirtækin í Hafnarfirði,“ segir Haraldur bæjarstjóri.
500 megabitar á sekúndu
Ljósleiðarinn er gæðasamband fyrir heimili og býður upp á mikla bandbreidd til að mæta auknum kröfum heimila. „Öllum heimilum í Hafnarfirði sem nú bætast í hóp þeirra sem tengdir eru ljósleiðaranum stendur til boða 500 megabita nethraði, sem síðar verður hægt að tvöfalda með sama búnaði. Ljósleiðaraþráðurinn sjálfur styður svo mun meiri hraða þegar á þarf að halda,” segir Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdarstjóri Gagnaveitunnar. „Ljósleiðarinn er framtíðarlausn í gagnaflutningum,“ bætir hann við.
 
Erling segir tengingu heimilanna í Hafnarfirði vera ögrandi verkefni. „Þessu fallega bæjarstæði fylgja áskoranir í lagningu Ljósleiðarans í jörð og við munum greiða úr þeim í góðu samstarfi við bæjaryfirvöld og íbúa,“ segir Erling.

Opið net

Ljósleiðarinn er opið net og geta viðskiptavinir keypt þjónustu um hann af mörgum fjarskiptafélögum.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.