Þjónusta Símans komin á Ljósleiðarann

28. ágúst 2021

Nú geta viðskiptavinir Símans sótt þjónustu sína um Ljósleiðarann, hvort sem það er símaþjónusta, internettenging eða sjónvarp. Fyrsti viðskiptavinurinn hefur þegar verið tengdur, en það var heimili Ellenar Ýrar Aðalsteinsdóttur og fjölskyldu. Ellen starfar nú hjá Orkuveitu Reykjavíkur en vann um árabil hjá Símanum.

Aukið val – aukin samkeppni

„Við bjóðum Símann velkominn með sína þjónustu á Ljósleiðarann. Nú geta yfir 100 þúsund heimili pantað þjónustu Símans yfir Ljósleiðarann, sem eykur samkeppni og val neytenda til framtíðar. Það var virkilega skemmtilegt að sjá fyrsta viðskiptavin Símans tengjast um Ljósleiðarann.“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.

Faglegt og ánægjulegt samstarf

Það var Orri Hauksson, forstjóri Símans, sem bauð Ellen og fjölskyldu velkomna í viðskipti.

„Við erum ánægð að geta loks mætt þeirri eftirspurn að bjóða alla þjónustu okkar á kerfi Gagnaveitunnar, mörg heimili hafa beðið lengi eftir þessu og við fögnum því að geta boðið fleiri heimilum fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu Símans.  Samstarfið við Gagnaveituna á meðan innleiðingu stóð var faglegt og ánægjulegt og erum við bjartsýn á að neytendur muni taka vel í innkomu okkar á ljósleiðarakerfi Gagnaveitunnar,“ sagði Orri við það tækifæri.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.