​PFS tekur undir með Gagnaveitu Reykjavíkur

valur

Skrifar

04. maí 2018

Ljosleidarastrengi

PFS tekur undir með Gagnaveitu Reykjavíkur
Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) tekur undir ábendingar Gagnaveitu Reykjavíkur (GR) um að Míla, dótturfélag Símans, hafi ekki farið að reglum þegar fyrirtækið ákvað að leggja fjarskiptalagnir í Setbergslandi í Hafnarfirði án þess að gefa öðrum kost á að samnýta framkvæmdina. GR mun á þessu ári ljúka við að tengja Ljósleiðarann við öll heimili innan þéttbýlis á Höfuðborgarsvæðinu.
Míla brotleg
Með ákvörðun nr.5/2018 telur Póst- og fjarskiptastofnun þrennt í framgangi Mílu hafa brotið gegn ákvörðun stofnunarinnar frá 2014 þar sem Míla var skilgreind sem fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsráðandi styrk og lagðar á það kvaðir. Lýtur það allt að framkvæmdum árið 2017 í Setbergslandi í Hafnarfirði og skorti á upplýsingagjöf af hálfu Mílu. Með því áttu önnur fyrirtæki ekki kost á að taka þátt í framkvæmdunum.
PFS telur í ákvörðun sinni ekki afdráttarlaust hvort stofnunin hafi heimild til að leiðbeina sveitarstjórnum, sem gefa leyfi fyrir jarðvegsframkvæmdum, um hvaða kvaðir hvíli á Mílu í þessum efnum. Þess vegna var ekki orðið við ósk GR um að stofnunin gæfi slíkar leiðbeiningar en fram kemur að PFS sendi gögn þessa máls áfram til Samkeppniseftirlitsins.
Samkomulag tryggir uppbyggingarhraða
Frá því brotin áttu sér stað hafa GR og Míla, með undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu, gert samkomulag um samstarf við framkvæmdir. Það mun gera GR kleift að halda áfram miklum uppbyggingarhraða Ljósleiðarans. Auk tengingar nýrra heimila í landinu, kjósa sífellt fleiri viðskiptavinir Ljósleiðarans að nýta sér möguleikann á 1 gígabits tengihraða. Um níu af hverjum tíu viðskiptavinum njóta nú slíkrar hágæðatengingar.
Aldrei hraðari uppbygging
Útbreiðsla Ljósleiðarans hefur verið ör síðustu ár og aldrei voru fleiri heimili tengd en árið 2017, eða 10.556. Lokið verður við tengingar í þéttbýli Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Mosfellsbæjar á yfirstandandi ári og verkefnum Ljósleiðarans í Borgarbyggð lýkur fyrir árslok 2018.
Árborg og Reykjanesbær fá Ljósleiðarann
Í lok mars og byrjun apríl nú í ár gerðu Árborg og Reykjanesbær samkomulag við GR um tengingu Ljósleiðarans við heimili í bænum. Sú vinna hefst á árinu og vera lokið fyrir árslok 2021.