PFS sektar Símann aftur fyrir ítrekað brot á lögum

15. apríl 2020

Síminn braut lög með því að beina áskrifendum að Sjónvarpi Símans í viðskipti við eigið fjarskiptatæki. Þetta er niðurstaða Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) og er ákvörðunin birt á vef stofnunarinnar í dag. Þetta er í annað skipti að PFS sektar fyrir sama brotið og eins og í fyrra skiptið nemur sektin níu milljónum króna. Hámarkssekt er 10 milljónir.

Með brotinu er val fólks á fjarskiptaþjónustu takmarkað með tilheyrandi tjóni fyrir almenning og samkeppni á markaði.

Í kjölfar fyrri sektarákvörðunar PFS, kynntu tvö fjarskiptafyrirtæki sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna lögbrota Símans kröfur á hendur Símanum sem nema samtals hátt á fjórða milljarð króna. Þetta eru Gagnaveita Reykjavíkur og Sýn (Vodafone).

Gagnaveitan fagnar þessari niðurstöðu PFS og bindur áfram vonir við að brotum Símans linni.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.