Opið net Ljósleiðarans og samstarf í framkvæmdum

kjartan31. ágúst 2017

Vel skipulagðar og hraðar framkvæmdir lykilatriði

Það var framsýnt fólk sem lagði af stað í þá vegferð að ljósleiðaratengja íslensk heimili fyrir rúmlega áratug síðan. Fólk sem sá þörfina sem yrði í framtíðinni og að ef við ætluðum að vera samkeppnishæf á alþjóðavettvangi þá þyrfti að byrja fyrr en síðar. Að byggja upp innviði er fjárfesting til langtíma, það þarfnast þolinmæði og að vandað sé til verka. Til að slík uppbygging gangi sem hraðast fyrir sig þá þarf að nýta fjármagnið vel. Gagnveita Reykjavíkur hefur í gegnum árin þróað áfram vinnuaðferðir með verktökum sem hefur gert fyrirtækinu kleift að nýta fjármagnið vel. Þar skiptir hraði í framkvæmd mestu máli fyrir verktaka. Hraðinn í þessu samhengi er að geta opnað yfirborð, lagt innviði í jörðu og svo lokað yfirborðinu á sem skemmstum tíma.

Aukið öryggi íbúa

Að hafa skurði opna sem allra skemmst í framkvæmdaferlinu er mikilvægt fyrir öryggi íbúa og til að lágmarka rask í nærumhverfi þeirra. Margir viðskiptavinir Ljósleiðarans hafa einmitt upplifað það að framkvæmdir hófust fyrir framan þeirra hús að morgni til og að verkinu hafi verið lokið þegar þeir komu aftur heim frá vinnu, s.s. rask í einn dag á þeirra lóð. Slík vinnubrögð auka ekki bara öryggi heldur eru þau einnig  hagkvæm því þau halda kostnaði við lagningu ljósleiðarans í lágmarki. Lenging framkvæmdaferlis, t.d. með innkomu nýrra aðila eftir að það hefst, setur strik í reikninginn hvað hraða og öryggi varðar.

Samstarf við lagningu innviða

Gagnaveita Reykjavíkur hefur alla tíð átt í samstarfi við sveitarfélög og veitustofnanir við lagningu á sínum innviðum. Þegar fyrirtæki vinna saman í verkefnum þá hefst samvinnan á undirbúningsstigi. Lagnir eru hannaðar, fundinn er sameiginlegur framkvæmdaraðili og loks farið í framkvæmd. Í þannig verkefnum hafa Gagnaveita Reykjavíkur og Míla, fyrirtæki í samkeppni, tekið þátt og greitt sinn hluta af kostnaði. Öll ný hverfi fá tvöfalt ljósleiðarakerfi sem er lagt á sama tíma í góðri samvinnu milli fyrirtækjanna og kostnaður við jarðvinnu deilist á alla þátttakendur. 

Fyrsta ósk Mílu um samstarf frá upphafi

Gagnaveita Reykjavíkur hefur verið að leggja ljósleiðara til heimila í rúmlega 10 ár í sínum eigin verkefnum. Framkvæmdir eru skipulagðar mörg ár fram í tímann og í samræmi við opinber áform í sveitarfélögum hverju sinni. Til að tryggja að verkefnin séu unnin með sem hagkvæmum hætti þá þarf undirbúningur verks að fara fram töluvert áður en verktaki hefur vinnu við að leggja innviði. Í undirbúningi felst meðal annars að afla framkvæmdaheimilda á lóðum íbúa, hönnun á lagnakerfi og að finna verktaka til að vinna verkið. 

Á þessu rúmlega tíu ára tímabili sem Gagnaveita Reykjavíkur hefur unnið í sínum verkum hefur Míla aldrei óskað eftir að vera með í þeim framkvæmdum fyrr en í mars árið 2017. Það var að beiðni Kópavogsbæjar þar sem Míla var á þeim tímapunkti að óska eftir framkvæmdaleyfi á svæðum sem Gagnaveita Reykjavíkur var ýmist búin að framkvæma á eða hugðist framkvæma á árinu 2017. Á þeim tímapunkti er Gagnaveita Reykjavíkur augljóslega búið að gera skuldbindingar gagnvart verktökum og íbúum og því óraunhæft að endurskipuleggja öll framkvæmdaverk Gagnaveita Reykjavíkur fyrir árið 2017 þegar beiðni um aðkomu berst í mars sama ár. Ef það hefði verið vilji Mílu að vinna saman að lagningu ljósleiðara með GR á árinu 2017 þá hefði beiðni um samstarf þurft að koma mun fyrr. Þau verkefni sem GR er að vinna að eru allt verkefni þar sem áform um framkvæmdir voru gerðar opinberar með viljayfirlýsingum árið 2015. 

Nú þegar hugur Mílu um samstarf í eldri hverfum liggur fyrir getur Gagnaveita Reykjavíkur notað þær upplýsingar við undirbúning á verkefnum ársins 2018. Opinberlega hafa bæði félög gefið það út að klára ljósleiðaravæðingu til heimila á höfuðborgarsvæðinu fyrir árs lok 2018 og líklegt að einhver verkefni á vegum félaganna á næsta ári eigi samleið. Fundist hefur lausn fyrir verkefni sem eru nú þegar í vinnslu í Kópavogi og Hafnarfirði þar sem sömu verktakarnir leggja rörakerfi fyrir báða aðila. 

Gagnaveitu Reykjavíkur fyrst inn

Þegar Gagnaveita Reykjavíkur leggur af stað í þá vegferð að leggja ljósleiðara í sveitarfélagi þá hefur aldrei verið ljósleiðari til staðar til heimila í sveitarfélaginu á þeim tímapunkti. Það hefur því alltaf verið að frumkvæði Gagnaveitu Reykjavíkur sem ljósleiðaravæðing hefur hafist í þeim sveitarfélögum sem Gagnaveita Reykjavíkur þjónar. Gagnaveita Reykjavíkur hefur lagt Ljósleiðarann til 80 þúsund heimila á Suðvesturlandi. Í meira en 98% tilfella var það fyrsti ljósleiðarinn til heimilisins og kemur hann á samkeppni sem var ekki til staðar fyrir. Áður fyrr var einungis einn kostur en eru nú tveir, neytendum til hagsbóta. Ef annar aðili sér hag í því að leggja seinni ljósleiðara inn að heimili sem nú þegar eru með ljósleiðara þá er það þeirra að ákveða það. Það að það sé verið að leggja tvö ljósleiðarakerfi er ekki tvöfaldur kostnaður, bætir þjónustuframboð og eykur samkeppni. Það má benda á að hér á Íslandi eru þrjú farsímakerfi sem sinna öll nær sama þjónustusvæði og hefur samkeppni á farsímamarkaði verið talsverð síðusta áratug.

Samantekt

Í stuttu máli þá má taka þetta saman í þessa punkta:

  • Þegar Míla óskar eftir samstarfi við Gagnaveitu Reykjavíkur við lagningu ljósleiðara á tilteknum svæðum í  Kópavogi var verkefnum ýmist lokið eða undirbúningur langt kominn og því óraunhæft að ætla endurskipuleggja verkin án mikilla tafa og aukins kostnaðar
  • Fundin var lausn fyrir þau verkefni sem voru undirbúin fyrir þetta ár, lausn sem margir aðilar komu að til að ná sáttum
  • Áður en Gagnaveita Reykjavíkur mætir með Ljósleiðarann til sveitarfélags þá er engin samkeppni til staðar
  • Í 98% tilfella lagningu Ljósleiðarans er það fyrsti ljósleiðari inn á heimili
  • Ljósleiðarinn er opið net, sem stendur Símanum til boða að nýta jafnt öðrum fjarskiptafélögum  

Aðeins um Gagnaveitu Reykjavíkur

Gagnaveita Reykjavíkur er fjarskiptafélag í eigu Orkuveitu Reykjavíkur og stofnað árið 2007. Hlutverk Gagnaveitunnar er að veita íslenskum heimilum og fyrirtækjum aðgengi að hágæða þjónustu á opnu aðgangsneti. Gagnaveita Reykjavíkur (GR) sér um lagningu og rekstur Ljósleiðarans. Ljósleiðarinn er gæðasamband fyrir heimili og fyrirtæki sem býður öfluga tengingu fyrir Internet, sjónvarp og síma. Ljósleiðarakerfi GR er opið net sem öllum fjarskiptafyrirtækjum býðst að selja þjónustu sína á og stuðlar þannig að aukinni samkeppni í fjarskiptum og skýtur stoðum undir aukna net- og snjallvæðingu samfélagsins.