Nýtt í netbúnaði

12. apríl 2017

Það eru komnir nokkrir mánuðir síðan við fjölluðum um netbeina sem geta meira og kominn tími á nýjustu fregnir og tíðindi af netbúnaðarmálum. Síðan þá er komin ný útgáfa af þráðlausum staðli (AC Wave 2), Apple hætti framleiðslu netbeina (bless Airport) og samtengd þráðlaus netbúnaður datt í tísku.

Wave 2

Núverandi þráðlaus staðall er nefndur 802.11AC og fékk hann smá uppfærslu nýlega og eru fyrstu tækin sem styðja þá útgáfu að detta inn á markað núna.

Hér er það helsta sem þú þarft að vita:

  • Mesti mögulegi hraði fer úr 1,3 gígabitum og upp í 2,34 gígabita. Hraðinn sem við sjáum venjulega eru þessar tölur deildar með tveimur. Þannig nær þráðlaust net loksins einu gígabiti.
  • Fjöldi tækja sem geta verið tengd hverju sinni eykst. Með MU-MIMO stýringu (multi user multiple input, multiple output) er nú hægt að nýta þráðlausa tíðni mun betur, sérstaklega þegar tæki tengjast og aftengjast netkerfinu.
  • Nýrri rás bætt við: 160 MHz. Áður voru rásirnar 20, 40 og 80 MHz. Það eykur heildarafköst netkerfis.
  • Tíðnirými 5 GHz tíðnar hefur verið aukin, sem kemur í veg fyrir árekstra og ætti að bæta samband þar sem mörg 5 GHz net krossa.

Það eru mjög fá tæki komin út með Wave 2 stuðningi og eitthvað í það að almennur notandi finni fyrir breytingu. Bæði þurfa netbeinir og nettæki (tölva, símar, …) að styðja Wave 2 til að nýta sér kosti þessi.

Apple drepur Airport

Seint á síðasta ári hætti Apple að framleiða netbeinalínu sína Airportþ Sagan segir að öll netdeildin þeirra hafi labbað út eftir að Apple neitaði að leyfa þeim að taka þátt í verkefni á opnum vettvangi (OCP) á vegum Facebook. Það gæti hafa haft áhrif á dauða Airport vörulínunnar. 

Nýr samtengdur þráðlaus búnaður

Samtengdur þráðlaus búnaður er núna nýjasta nýtt fyrir heimili, eða mesh netbúnaður. Hér er farið frá hugmyndafræðinni um einn mjög öflugan netbeini sem nær að þjóna heimili, yfir í fleiri en einn minni þráðlausa senda. Þannig næst jafnara netsamband um heimili, en minni mesti mögulegi hraði fyrir eitt tæki. Eitt tæki tengist við grunnsamband og dreifi svo sambandinu til næsta tækis. Hér eru nokkur tæki sem bjóða upp á samtengt þráðlaust net:

Eero

Eero hafa nokkuð lengi verið að hamra á mesh lausn og hafa verið duglegir að markaðssetja sig í erlendum hlaðvörpum (t.d. The Talk Show og ATP). Eero býður upp á app til að stilla tækin og ýmsa snjallfídusa eins og tengingar við snjallbúnað (ljósaperur, rafmagnsrofa og Amazon Echo) eða aðgang barna.

Plume

Plume eru þráðlausir sendar sem tengjast beint í rafmagnsdós og stilla þráðlausa netið svo sjálfir og aðlagast þörfum heimilisins. Þetta eru litlir og ótrúlega fallegir sendar sem koma í þremur mismunandi litum. Sex stykki saman kosta $329 á vefsíðu þeirra.  

Google WiFi

Google hafa verið að búa til netbeina undir nafninu OnHub, sem fylgja þessari gömlu hugmyndafræði um einn öflugan netbeini. Þeir kynntu seint á síðasta ári Google WiFi, sem eru minni tæki sem tengjast saman til að auka drægni. Tækin eru fallega hönnuð, eða eins og hvítir háir hokkýpökkar. Tækin eru stillt að öllu í leiti í gegnum app (iOS og Android) og bjóða upp á ýmsa skemmtilega fídusa (t.d. IFTTT og hraðapróf). Tækin hafa ekki sést í sölu á Íslandi, en er hægt að kaupa á netinu frá til dæmis Amazon.co.uk. Hægt er að fá þrjú saman 400 pund þar.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.