Nýr framkvæmdastjóri Gagnaveitunnar

kkadmin1. febrúar 2015

Erling Freyr Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, dótturfélags Orkuveitunnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Erling stofnaði Ljósvirkjann, þjónustufyrirtæki við fjarskiptafyrirtæki, árið 1996 og upp úr aldamótum stofnaði hann ásamt öðrum Industria, fyrirtæki sem sérhæfði sig í þjónustu við uppbyggingu ljósleiðarakerfa. Hann rak það fyrirtæki hér á landi frá 2003 og síðan á Bretlandseyjum frá ársbyrjun 2008. Árið 2013 tók Erling við framkvæmdastjórn fjarskipta- og tæknisviðs 365 miðla en hefur frá miðju síðasta ári starfað sem fjármálastjóri við endurskipulagningu á Hringrás og tengdum félögum.

Erling lagði fyrst stund á rafvirkjun og lauk MBA-prófi frá Háskólanum í Reykjavík 2009.

„Það er mikill heiður að fá að vinna með starfsfólki Gagnaveitunnar og fá tækifæri til að fylgja eftir þeirri frumkvöðlavinnu og mjög svo mikilvæga starfi sem Gagnaveitan hefur unnið til þessa. Ég hef fylgst vel með fyrirtækinu í gegnum árin og er mjög ánægður með hvernig það hefur þróast. Þjónustan sem Gagnaveitan veitir í dag er með því besta sem gerist í heiminum á sviði fjarskipta,“ segir Erling.

Gagnaveita Reykjavíkur ehf. er fjarskiptafyrirtæki í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Hlutverk hennar er rekstur og uppbygging háhraða gagnaflutningskerfis sem byggir á ljósleiðara- og IP nettækni. Um 60 þúsund heimili eru tengd Ljósleiðaranum. Hjá Gagnaveitunni starfa um 30 manns.

Hlekkur