Netumferð stóreykst

15. apríl 2020

Covid-19 áhrif – Netumferð stóreykst 

Áhrifa Covid-19 veirunnar gætir víða en samhliða verulegri aukningu í fjarvinnu fólks sem og samdrætti í umferð bíla og gangandi fólks hefur netumferð stóraukist. Hjá Gagnaveitu Reykjavíkur (GR) hefur flutningur gagnamagns aukist um 40% hjá Ljósleiðara GR að undanförnu með tilheyrandi álagi á kerfið.

„Síðustu 30 daga hefur netumferð um kerfi Gagnaveitu Reykjavíkur aukist verulega, sem við tengjum beint við tvær dagsetningar, 28. febrúar þegar lýst var yfir hættustigi almannavarna og 6. mars þegar neyðarstigi var lýst yfir,“ segir Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur og bendir á að nágrannalönd okkar séu að upplifa sömu þróun.

„Fjöldi fólks vinnur nú að heiman og notkun fjarfundabúnaðar hefur stóraukist. Margir eru einangraðir í sóttkví eða eru jafnvel veikir, og þá sækir fólk í auknum mæli eftir afþreyingu á netinu. Allt þetta hefur stór áhrif á flutning gagnamagns.“

Erling segir að aukning umferðar sé mest á vinnutíma þar sem umferð hefur aukist allt að 100%.
„Við sjáum aukningu netumferðar og nær hún hámarki þegar daglegir upplýsingafundir almannavarna eru haldnir kl 14:00. Kvöldin er ennþá sá tími þar sem flestir eru að flytja efni, sem tengja má við áhorf á sjónvarp og spilun tölvuleikja.“   

Mikið á álag um heim allan en innviðir hér traustir

Fram hefur komið í fjölmiðlum að nauðsynlegt hefur verið að bregðast við auknu álagi á innviði fjarskipta í Evrópu með því að takmarka gæði myndefnis hjá streymisveitunum Netflix og Youtube. Ljósleiðari Gagnaveitu Reykjavíkur hefur ráðið vel við hið aukna álag.

#WFH stendur fyrir Work From Home eða að vinna heima.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.