Ljósleiðarinn í breyttum samgöngum

Valur26. febrúar 2018

Það er allt á fleygiferð í samgöngumálum (skipulagt skop). Orkuskipti yfir í rafmagn standa yfir, Borgarlína er til umræðu, sjálfkeyrandi bílar líka og deilibílakerfi. Allar þessar breytingar treysta með einhverjum hætti á trausta flutninga á rafrænum gögnum sem eru lykilþáttur í sumum þessara lausna.

Frísklegri samgöngur

Eina breytingu enn er rétt að nefna og hún styðst einna síst við Ljósleiðarann. Það er fjölgun þeirra sem koma sér milli staða fyrir eigin afli; á hjóli, gangandi, á hjólaskautum eða bretti. Þessi bráðholli ferðamáti gerir ekki miklar kröfur til gagnaflutninga. Það má þó benda á að í Reykjavík er að minnsta kosti einn sítengdur teljari sem fylgist með því hversu margir hjóla hjá og tengist það næsta atriði hér á eftir.

Gagnaöflun og gagnagreining

Á vef Vegagerðarinnar getum við fylgst með því í rauntíma hversu margir hafa farið um Hellisheiðina þann daginn eða síðustu mínútur. Slíkar upplýsingar þykja sumum okkar forvitnilegar en gagnaöflun af þessu tagi er í sívaxandi mæli notuð til að greina hegðun fólks. Fjarskiptatenging bílanna sjálfra er önnur vídd á þessu þar sem bílarnir eru nú búnir margvíslegum upplýsingakerfum. Þau gögn væri hugsanlegt að nota til að skipuleggja samgöngur og samgönguleiðir betur. Í þessum efnum þurfum við auðvitað að huga að persónuverndarmálum.

Rafbílar

Vinir okkar hjá Orku náttúrunnar er óþreytandi við að byggja upp innviði fyrir rafvæðingu samgangna. Rafmagnið er sannarlega komið í umferð og reynslan er sú að glögg og nákvæm upplýsingagjöf til viðskiptavina er lykilatriði. Það er nauðsynlegt að hafa öflugan hleðslubúnað en ekki nóg. Öll fyrirtæki sem eru að gera sig gildandi í sölu á rafmagni við vegina eru með öfluga upplýsingaþjónustu í gegnum öpp og þar er ON enginn eftirbátur þeirra sem best eru að gera í kringum okkur. Í appinu eru rauntímaupplýsingar og beinir tenglar á upplýsingaþjónustu sem reiðir sig á öflug fjarskiptakerfi.

Deilibílar

Það er þekktara en frá þurfi segja að Uber hefur gerbreytt hugmyndum margra um leigubíla. Viðskiptahugmyndin byggir á fjarskiptalausn sem þarfnast öflugra gagnaflutninga. Annað birtingarform deilihagkerfisins í samgöngum eru deilibílar sem bókaðir eru í gegnum app og þannig er líka greitt fyrir notkunina á þeim. Fyrir þá sem þurfa á bíl að halda öðru hvoru getur þetta verið afar hagkvæm leið. Til þess að svona snjallar lausnir gangi upp þurfa innviðir fjarskipta að vera öflugir og áreiðanlegir eins og Ljósleiðarinn er.

Sjálfakandi bílar

Þeir eru komnir, bílarnir sem keyra sjálfir. Snjallfyrirtæki á borð við Google segja að frá öryggissjónarmiði sé þeim betur treystandi en bílunum sem fólk ekur. 1,2 milljónir deyja á ári í umferðarslysum, sem flest verði vegna mistaka ökumanna. Bílaframleiðendur veðja frekar á bíla sem setja má á sjálfstýringu; fólk vilji geta valið. Hvor leiðin sem yrði ofan á þá krefjast þær báðar verulegra gagnaflutninga. Sumir kynnu að spyrja hvort þau yrðu ekki þráðlaus fyrst bílarnir eru á ferð. Svarið er jú, en ef gögnin þurfa að fara lengra en nokkra tugi metra þá eru þau flutt með vír, rétt eins og milli farsímamastra í dag, og í þeim efnum stendur engin tækni Ljósleiðaranum á sporði. Gagnamagnið sem sjálfakandi bílar styðjast við á ferðum sínum er gríðarlegt. 4G eða 5G sinnir hluta af gagnaflutningnum en á milli þráðlausu sendanna er burðarstoðin ljósleiðari.

Öflugar almenningssamgöngur

Vandinn sem fylgir mikilli bílaumferð er tvíþættur; mengun vegna útblásturs eða ryks og tafsöm umferð; andateppur eða umferðarteppur, eins og sagt hefur verið. Rafbílar leysa hluta þessara vandamála en flestir eru á því að efldar almenningssamgöngur hljóti að vera hluti lausnarinnar á báðum viðfangsefnum. Nú á að fara að bæta upplýsingakerfi Strætó þannig að rauntímaupplýsingar birtist við hvert skýli. Öpp eru orðinn nauðsynlegur hluti almenningssamgangna í nágrannalöndunum og að hluta hér á landi og Borgarlínan, sem nú er til umræðu, finnst manni óhugsandi án þess að faratækin sem um hana fara gangi fyrir rafmagni og rauntímaupplýsingar um ferðir séu glöggar.

Það eru því spennandi tímar framundan hjá okkur Ljósleiðarafólki. Við erum aldeilis klár í bollaleggingar um þróun snjallsamfélagsins, í samgöngum sem öðru, og vitum að Ljósleiðarinn gerir það verkum að miklu fleiri snjallar hugmyndir eru framkvæmanlegar.

Hérna er tengill á skemmtilegan fyrirlestur frá UT Messunni nú í febrúar þar sem hægt er að sjá hvað Reykjavíkurborg er að spá í snjallmálunum.
https://www.youtube.com/watch?v=smUlLwTmIUw