Ljósleiðarinn er á leiðinni í Árborg

22. mars 2018

Ljósleiðarinn í Árborg

Gagnaveita Reykjavíkur og sveitarfélagið Árborg hafa gert með sér samkomulag um ljósleiðaravæðingu alls þéttbýlis í sveitarfélaginu. Þau Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Árborgar og Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur hafa skrifað undir viljayfirlýsingu þessa efnis. Samkvæmt henni er stefnt að því að ljúka verkefninu fyrir árslok 2021.
Erling Freyr Guðmundsson, ásamt sveitastjórn Árborgar

Íbúar hafa áhrif á framkvæmdaröð

Árborg er það sveitarfélag í landinu sem er í hvað örustum vexti. Íbúar geta haft áhrif á í hvaða röð eldri hverfi og byggðarkjarnar verða tengdir með því að lýsa yfir vilja til að tengjast Ljósleiðaranum hér. Samkomulagið nær til alls þéttbýlis í sveitarfélaginu, það er Selfoss, Stokkseyrar og Eyrarbakka.

Samstarf um uppbygginguna

Samhliða samkomulaginu við Árborg hefur Gagnaveita Reykjavíkur auglýst eftir samstarfsaðilum. Samstarfið getur verið meðal annars:
  • að selja Gagnaveitu Reykjavíkur fjarskiptalagnir sem fyrir eru í sveitarfélaginu og nýst geta við ljósleiðaravæðinguna, eða 
  • með samnýtingu framkvæmda með öðrum veitufyrirtækjum, fjarskiptafyrirtækjum eða sveitarfélaginu sjálfu.
Gagnaveita Reykjavíkur auglýsir eftir samstarfsaðilum í þessa veru, og geta áhugasamir aðilar kynnt sér málið frekar hér

Eitt gíg í boði

Með framkvæmdunum munu heimilum í þessum byggðakjörnum standa til boða Eitt gíg gæðasamband Ljósleiðarans, sem gefur kost á 1000 megabitum til og frá heimili.

Flest stærstu fjarskipta- og afþreyingarfyrirtæki landsins bjóða þjónustu sína um Ljósleiðarann og viðskiptavinum stendur til boða val á milli fjölmargra þjónustuleiða Vodafone, Nova, 365, Hringdu og Hringiðunnar.

Árborg í fremstu röð – Ljósleiðaravætt Ísland

Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Árborgar fagnar samkomulaginu um Ljósleiðarann. „Öflug fjarskiptatenging er orðin jafn sjálfsagður hlutur í nútíma sveitarfélagi og vatn, rafmagn og fráveita. Íbúum Árborgar fjölgar hratt og við erum ánægð með að fá Ljósleiðarann í hverja íbúð í bænum. Atvinnulíf verður hér líka samkeppnishæfara með bættum fjarskiptatengingum og við sjáum fram á gróskumikinn vöxt í sveitarfélaginu með því að þjónusta við íbúa og atvinnulíf eflist með tilkomu Ljósleiðarans. Árborg kemst í fremstu röð sveitarfélaga í þessu tilliti.“

Þessi tenging íbúa í sveitarfélaginu við opið net Ljósleiðarans styður við markmið stjórnvalda um ljósleiðaravæðingu alls Íslands. Verkefnið í þéttbýli Árborgar er alfarið á viðskiptalegum forsendum og ekki er sótt um ríkisstyrki vegna hennar. Sveitarfélög eiga kost á að sækja um styrki til ríkisvaldsins til að tengja þá staði þar sem markaðsforsendur fyrir tengingu eru ekki fyrir hendi. Árborg hefur þegar sótt um slíkan styrk fyrir dreifbýli sveitarfélagsins.

Lokið við höfuðborgarsvæðið 2018

Nú sér fyrir endann á verkefnum Gagnaveitu Reykjavíkur við uppbyggingu Ljósleiðarans í þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu. Á þessu ári verður lokið við að tengja hús í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Mosfellsbæ. Jafnframt er unnið að ljósleiðaravæðingu Borgarness og fleiri byggðakjarna í Borgarbyggð. Uppbyggingin í þessum sveitarfélögum var byggð á samskonar samkomulagi og nú hefur verið gert við sveitarstjórn Árborgar.

„Þessi uppbygging í Árborg er hagkvæm viðbót við opið net Ljósleiðarans,“ segir Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur. Hann bendir á að íbúar í Ölfusi, Hveragerði, á Hellu og Hvolsvelli hafi nú þegar tengst Ljósleiðaranum. „Þessi uppbygging liggur því vel við okkar innviðum. Við vonumst líka til að gott samstarf náist með öðrum hugsanlegum framkvæmdaaðilum og það gæti enn aukið hagkvæmni þessa verkefnis,“ segir Erling.

Nú þegar eru um 89 þúsund heimili tengd opnu neti Ljósleiðarans. Það eru um 65% allra heimila í landinu. Áætlað er að 4 þúsund heimili bætist við á þessu ári.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.