Gagnaveita Reykjavíkur og Garðabær hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf við ljósleiðaravæðingu heimila í Garðabæ. Nú þegar eru 1.800 heimili í bænum tengd Ljósleiðaranum og með samkomulaginu mun þeim fjölga í 5.300 fyrir lok árs 2018.
Í tilkynningu er haft eftir Erlingi Frey Guðmundssyni, framkvæmdarstjóra Gagnaveitunnar, að öllum nýjum heimilum sem tengjast Ljósleiðaranum í Garðabæ standi til boða 500 megabita nethraði, sem síðar verður hægt að tvöfalda með sama búnaði. Ljósleiðaraþráðurinn sjálfur styðji svo mun meiri hraða þegar á þarf að halda.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar segir vilja Garðabæjar að stuðla að því að Garðbæingar hafi aðgang að öflugustu nettengingum sem boðið er upp á í dag. „Ljósleiðarinn býður ný tækifæri í þróun þjónustu við íbúa. Þar er meðal annars horft til öryggisþjónustu, samgangna og skóla þar sem starfið reiðir sig í síauknum mæli á traust og öflug fjarskiptakerfi.“
Ljósleiðarinn er opið net og geta viðskiptavinir keypt þjónustu um hann af mörgum fjarskiptafélögum. Það eykur fjölbreytni og eflir samkeppni innan kerfisins. Söluaðilar á þjónustu um Ljósleiðarann eru nú 365, Hringdu, Hringiðan, Símafélagið og Vodafone.