Ísland númer eitt

Valur13. desember 2017

Okkur þykir það ekkert leiðinlegt þegar við Íslendingar teljumst bestir í heimi. Það er ágreiningslaust að við erum rosalegust í heimi í fótbolta karla og kvenna, að minnsta kosti miðað við höfðatölu. Nú er orðið opinbert að í fjarskiptamálum erum við best og þar er ekki miðað við höfðatölu. Við teljum að sífellt aukin útbreiðsla Ljósleiðarans með allan hans hraða eigi verulegan þátt í að við vermum toppsætið 2017.

Alþjóðafjarskiptasambandið gerir árlega skýrslu um hversu þróaðar þjóðir heims eru á fjarskiptasviðinu. Reiknaður er út svokallaður IDI (ICT Development Index) sem má leggja út sem þróunarstuðul í upplýsingatækni. Að baki honum liggja ýmsar tölur sem sambandið telur skipta máli í þessu samhengi, þar á meðal bandvídd tenginga fólks við hið alþjóðlega internet. Það er einmitt í þeim efnum sem við skjótum helstu keppinautum okkar, Suður Kóreu og Sviss, ref fyrir rass.

Þó þessum toppi sé náð þýðir ekki að vera værukær. Staða fjarskiptamála ræður miklu um samkeppnishæfni þjóða og það stendur enginn í stað í þeim efnum. Þess vegna er ánægjulegt að sjá í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar að sækja á fram og ljósleiðari er þar í brennidepli. Það metnaðarfulla markmið er sett að ljósleiðaravæðingu landsins verði lokið árið 2020 og að Ísland verði áfram í fremstu röð þegar kemur að fjarskipta- og upplýsingatækni.

Í stjórnarsáttmálanum er áhersla lögð á samstarf til að halda okkur í fremstu röð. Ljósleiðarinn hefur einmitt verið byggður upp í samstarfi við sveitarfélög og margvísleg innviðafyrirtæki, þar á meðal á fjarskiptamarkaði. Flest stærstu fjarskiptafyrirtæki landsins bjóða þjónustu um Ljósleiðarann og netið er opið fyrir öllum þeim sem vilja taka þátt í keppninni um að Ísland verði áfram í fremstu röð.

Í þremur efstu sætunum auk Íslands eru Suður-Kórea og Sviss. Suður-Kórea hefur verið í áskrift að þessu fyrsta sæti um árabil, enda sveitafélög þar mjög öflug að koma ljósleiðara til íbúa sinna. Flest heimili í þéttbýli þar hafa verið með ljósleiðara alla leið lengi vel.

Þar sem Ísland ber af er aðgengi að fjarskiptum, netnotkun og tölvuaðgengi. Nær öll heimili landsins hafa aðgang að internetinu, allir landsmenn teljast vera netnotendur og nær öll heimili eru með tölvu. Af 130 þúsund heimilum landsins hafa 87 þúsund þeirra aðgang að Eitt gíg hjá Ljósleiðaranum. Stefnt er að því að tengja allt þéttbýli höfuðborgarsvæðis fyrir lok næsta árs.