Hið nettengda heimili

Valur30. nóvember 2016

Hið nettengda heimili (Blogg eftir Eirík Hjálmarsson)

Fyrir rúmum áratug gerði ég gangskör að því að efla gagnatengingu heimilisins. Nú skyldi sko farið í ADSL! Samhliða var settur upp netbeinir þannig að maður gat flakkað með einu fartölvuna á heimilinu milli herbergja. Símainntakið er nefnilega þannig staðsett að væri maður vírtengdur þá þurfti maður að vera í sjónvarpshorninu með tölvuna með tilheyrandi áhrifum á heimilisfriðinn. Með breytingunni var sjónvarpið líka komið í samband um vírinn og myndin í því tiltölulega truflanalítil í roki.

Næstu vikur og mánuði tók ég eftir því, þegar ég var að tengja fartölvuna þráðlausa netinu heima, að smátt og smátt fóru fleiri og fleiri valkostir að dúkka upp. Nágrannar mínir voru sem sagt hver á eftir öðrum að gera það sama og ég; að fá sér ADSL tengingu og þráðlaust net innanhúss. Það voru ekki góðar fréttir.

Því fleiri sem horfðu, því verri varð myndin

Fyrst tók ég eftir því þegar ég var að horfa á enska boltann að brottfall í myndinni fór vaxandi, hún jafnvel fraus og truflanir jukust. Það varð að lokum nánast ómögulegt að vinna með stærri skjöl sem vistuð voru á drifum uppi í vinnu og ég var að reyna að sýsla í heima við. Tæknin var þá sett þannig upp að ég átti í raun ekki trygga flutningsgetu um netið heldur jókst bara stöðugt þrýstingurinn að flöskuhálsinn eftir því sem nágrönnunum fjölgaði sem vildu efla gagnaflutninginn til þeirra heimilis og frá því.

Þetta bara áfram að versna þangað til – já þangað til það batnaði. Ljósleiðarinn var tengdur á Melana 2009 og ég var ekki seinn á mér að skipta yfir á þá tengingu. Í fyrsta lagi þá jókst hámarksflutningsgetan og í öðru lagi var flutningurinn jafn í báðar áttir. Það skipti mig miklu máli í minni vinnu.

Úr einu nettengdu tæki í fleiri en tíu

Frá því þetta gerðist hafa börnin á heimilinu vaxið úr grasi. Þau fengu snjallsíma og fartölvur urðu ómissandi þegar komið var í framhaldsskóla. Nú eru fjórir snjallsímar á heimilinu, fjórar fartölvur, ein leikjatölva og gamaldags heimilissími að auki (sem hefur reyndar ekki virkað sem skyldi í nokkrar vikur 😉 Við látum okkur eitt sjónvarp duga sem tengt er Ljósleiðaranum.

Hjá okkur var farið að þrengjast aðeins um netaðgang fyrir um ári síðan, sérstaklega ef að gestkomandi voru með aðgangsorðið að netbeininum vistað í símunum sínum. Ég hafði ekki áttað mig á því að þó 100 megabita hraði væri ansi mikið, þá var flöskuhálsinn að finna í beininum. Það var auðsótt og afar fljótgert að uppfæra tenginguna og fá nýjan og öflugri beini frá mínu fjarskiptafyrirtæki. 500 megabita tengingin er draumur og vandræðin að baki. Það má svo botna söguna með því að þegar 1.000 megabita tengingin stóð til boða var ég kominn með allar græjur og ég mátti til með að prófa þetta. Nú vinnur tölvan mín hraðar heima en í vinnunni.

Ég held samt áfram að mæta.