Gagnaveita Reykjavíkur tilnefnd til alþjóðlegra verðlauna

6. september 2018

Ljósleiðarinn frá Gagnaveitu Reykjavíkur hefur verið tilnefndur til alþjóðlegra verðlauna Carriers World Awards, sem eitt framsæknasta fjarskiptainnviðafyrirtæki í heildsölu. Gagnaveita Reykjavíkur  er þar á meðal fimm framúrskarandi fjarskiptafyrirtækja, en þar á meðal eru risafyrirtæki á borð við Deutsche Telekom og HGC Global Communications. Það mun koma í ljós á Carriers World ráðstefnunni í London þann 11. september hvaða fyrirtæki hneppir hnossið. Jafnframt er Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur, á meðal sex tilnefndra sem kosið verður á milli, sem heildsali ársins í fjarskiptainnviðum.

Framsækin þjónusta

Það er einkum tvennt sem þykir skara framúr í þjónustu Ljósleiðarans og gerir hann þess verðan að hljóta tilnefningu. Annars vegar er að síðastliðin. fjögur ár hefur hver einasta heimilisuppsetning verið  Eitt gíg. Það er 1.000 megabita hraði á sekúndu, bæði í upp- og niðurhali. Nú eru meira 98% ljósleiðaratengdra heimila með Eitt gíg gæðasamband. Hinsvegar þykir þjónustan „Ein heimsókn“ Ljósleiðarans, skara fram úr meðal samsvarandi fyrirtækja í heiminum. Hún er afrakstur samstarfs Gagnaveitu Reykjavíkur og þeirra fyrirtækja sem selja fjarskiptaþjónustu um Ljósleiðarann. Í einni heimsókn, í stað tveggja áður, kemur starfsmaður til viðskiptavinar, gengur frá tengingu Ljósleiðarans ásamt uppsetningu allra nettengdra tækja á heimilinu og prófar loks sambandið til að ganga úr skugga um að allt virki eins og það á að gera.

Carriers World

Carriers World er alþjóðleg ráðstefna fólks og fyrirtækja sem reka fjarskiptainnviðafyrirtæki á borð við Gagnaveitu Reykjavíkur. Ráðstefnan fer fram í London dagana 11. til 12. september næstkomandi og munu  stjórnendur margra af stærstu fyrirtækjum heims í innviðum fjarskipta, flytja þar erindi. Erling Freyr verður á meðal þeirra sem flytja erindi á ráðstefnunni. Kosning er öllum opin og okkur þætti vænt um að fá stuðning landsmanna. Kjósið Ljósleiðarann hér (Reykjavik Fibre Network), með því að setja inn nafn, netfang, og kjósa í spurningu 13 og 16. Athugið að kosningu lýkur á morgun klukkan 9:00 (7. september).

Verðlaun í fyrra

Í október síðastliðnum hlutu bæði Gagnaveita Reykjavíkur og Erling Freyr, verðlaun á stærstu ráðstefnu fyrirtækja í háhraðagagnaflutningum, Broadband World Forum. Gagnaveita Reykjavíkur var verðlaunuð fyrir þjónustuverkefnið „Ein heimsókn“ og Erling Freyr var kjörinn maður ársins í háhraðageiranum.

Stafrænt kolefnisspor þessarar fréttar/greinar er áætlað 0,2 til 1,0g CO₂ ígilda á hverja heimsókn.